24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

6. mál, stofnun yfirsetukvennaskóla í Reykjavík

Benedikt Sveinsson:

Eg hefi ekki sagt að 1.000 kr. væri í sjálfu sér of mikil borgun fyrir þessa kenslu. En eg held því fram, að þessa upphæð megi spara alveg innan skamms með því að leggja kensluna til háskólans.

Hv. 2. þm. Hún. (Tr. B.) játaði sjálfur, að innan skamms mundi þurfa að bæta kennara við læknadeildina, og eftir því sem prófessor Guðm. Magnússon hefir sagt, þá getur læknadeildin með þeim auknu kenslukröftum tekið að sér kensluna í yfirsetukvennafræði án sérstakrar borgunar. Það þýðir því ekki að vera að þrefa og þjarka um, að þetta yrði ekki til sparnaðar, þegar kenslukröftum verður bætt við háskólann hvort sem er, fyrr kemur ekki til þess. Kennarinn mundi fá 3.000 kr. hvort sem væri, og þar upp í gengi þessar 1.000 kr., ef kenslan væri ekki fastskorðuð við landlækni, og sjá allir heilvita menn, að við það sparast landssjóði 1.000 kr.

Háttv. þm. sagði að það væri nóg starf einum aukakennara að kenna yfirsetukonum 4 stundir á viku. Það virðist ekki vera svo feiknamikið starf þegar landlæknir, sem er önnum kafinn yndir, sækist eftir því og getur leyst það af hendi fyrir 1.000 krónur og vill meira að segja ekki með nokkru móti verða af því fyrir þessa borgun. Enda telur forstöðumaður læknadeildarinnar þetta vel kleift, að kennari taki að sér kensluna án aukaborgunar, og ber hann víst fult svo gott skyn á þetta sem þingmaðurinn.

Háttv. þm. sagði að hentugt væri að landlæknir hefði kensluna á hendi vegna þess að hann hefði eftirlit með heilbrigðismálunum. Er þá ekki hægt að segja það sama um aðrar greinar læknisfræðinnar? Væri þá ekki líka bezt að hann kendi læknaefnunum? Þetta virðist ekki hafa verið skoðun löggjafarinnar þegar hún létti af honum þeirri skyldu að kenna við háskólann.

Þá sagði hv. þm. að kennari við háskólann mundi síður en landlæknir gera meir en lögboðna skyldu sína gagnvart námskonunum, en það virðist síður en ekki ábyggilegt að treysta mikið á landlækni í því efni, þar sem hann er hér einmitt að skorast undan að gera lagalega skyldu sína, nema hann fái aukna borgun fyrir.