14.08.1912
Efri deild: 24. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

36. mál, sala á eign Garðakirkju

Jens Pálsson:

Jeg bað ekki um orðið til þess, að andmæla neinu af því, sem háttv. 4. kgk. hjelt fram eða bæta nokkru við orð hans; að eins stóð jeg upp til þess, að lýsa því yfir, að mjer er kunnugt um það, að aðalatriðið fyrir bæjarstjórninni í Hafnarfirði er það, að bærinn fái að njóta þeirra borgunarskilmála, sem teknir eru skýrt fram í frv. frá Nd., 2. gr. þess. Og með því jeg þykist hafa vissu fyrir því, að ekkert er til fyrirstöðu af hálfu stjórnarinnar, að þeir borgunarskilmálar haldist, þá hef jeg skrifað undir nefndarálitið fyrirvaralaust. — En þótt jeg sem fulltrúi þessa kjördæmis hefði átt að kjósa það helzt, að kaupin yrðu fullgerð, þá vildi jeg ekki gera ágreiningsatkvæði um eins sanngjarna tillögu og þá, sem fram kom í nefndinni, þ. e., að mat fari fram, og stjórnin ákveði söluskilmála; þar sem jeg líka var fyllilega samþykkur till., sem fór fram á það sama, er rætt var um sölu á prestsetrinu í Húsavík á síðasta þingi. Jeg var þá með því, að mat dómkvaddra manna færi fram; og jeg er einnig fyllilega ánægður með það, að stjórnin leggi síðustu hendur á þetta verk. Jeg er feginn, að hæstv. ráðherra er kominn inn í deildina og er hjer til staðar, og leyfi mjer að óska yfirlýsingar frá ráðherrastólnum um, hvers sje um minstu borgunarskilmála að vænta, því að miklu skiftir fyrir kaupendur, að fá að njóta fyrirhugaðra og af háttv. Nd. samþyktra borgunarskilmála.