19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Guðlaugur Guðmundsson:

Eg vil með nokkrum orðum gera grein fyrir brtill. á þskj. 293. Eg gat þess við fyrri umr., að mér hafi verið send tilkynning frá umboðsmanni mínum á Siglufirði, um að nú sé í ráði að flytja út síld án umbúða til Noregs. Ætlast er til að hún verði verkuð þar og búið til úr henni lýsi, fóðurmjöl o. fl. Lögin frá 31. Júlí 1907 gera ráð fyrir því að sú síld, sem gjald er lagt á, sé í einhverjum umbúðum. Var eg því í dálitlum vafa um það, hvort toll ætti að leggja á þessa síld. Gerði eg því fyrirspurn til stjórnarráðsins því viðvíkjandi og hefi eg fengið svar þess, að sú síld, sem útflutt sé án umbúða, sé tollfrjáls.

Eg hefi þess vegna farið fram á í br.till. minni að lagt sé gjald á síld, er flutt er út umbúðalaus í farmrúmi skips: 25 aura á hverja tunnu (108—120 ltr.).

Í 2. lið á sama þskj. legg eg það til, að tollurinn af hverri tunnu síldarlýsis verði 30 aurar í stað 50 aura. (Lárus H. Bjarnason: Þetta er óþarfa viðbót, því í lögum frá 1881 er lýsistollurinn ákveðinn 30 aurar á tunnu). Þá vil eg leyfa mér að upplýsa hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) um það, að 1881 var ekkert síldarlýsi til, að eins sel-, þorska- og hákarla-lýsi og því geta lögin frá 1881 ekki beinlínis haft það lýsi fyrir augum, sem ekki var til, vöru sem fyrst var farið að búa til 30 árum síðar. Mér finst vafasamt, hvort það sé „analogt“, að taka síldarlýsið í flokk með hinu, þar sem um toll er að ræða. (Lárus H. Bjarnason: Háttv. þm. veit ekki hvað „Analogi“ er).

Þótt. hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) segi að eg viti ekki hvað Analogi sé, þá er þó sú setning gömul, að enginn eigi að gjaLda skatt eða þola hegningu, nema skýr lög séu til þess, og því er vafasamt hvort hægt er að dæma menn til þess að borga toll af síldarlýsi eftir lögum frá 1881, sem ekkert geta ákveðið um síldarlýsi, þegar það var ekki til. Því er ástæða til brtill., sem tekur af allan vafa.

Eg hefi lagt til að tollurinn á fóðurmjöli verði 30 aurar á 100 kg. í stað 40 aura. Verðið á fóðurmjöli er mjög breytilegt, í fyrra var það 16 kr. á 100 kg., og nú er það að mig minnir 14 kr. á 100 kg.

Eg viðurkenni það, að tollurinn á þessum fóðurtegundum og áburðarefnum er tiltölulega hærri en á lýsi, en það er ekki gott við því að gera, eins og málið liggur fyrir.

Talað hefir verið um, að ekki væri gott að gera áætlun um tekjurnar af þessu. Ef gert er ráð fyrir 2 verksmiðjum, þá má gera ráð fyrir að þær geti brætt 2.000 máltunnur á dag. 8 máltunnur þarf í hverja lýsistunnu og 5 máltn. í hver 100 kg. af fóðurefnum. Eg hygg, að það sé lágt í lagt, að í 2—3 slíkar verksmiðjur fari 60—80 þús. máltunna á ári. Geta þá allir skynbærir menn reiknað, hve mikið þær gefi af sér af lýsi, fóðurmjöli og áburðarefnum.

Ekki get eg séð að þessi tollur þurfi að hefta atvinnugreinina, fremur en önnur álög til landssjóðs. Framleiðendumir búast sjálfir við honum og telja hann ekkert ósanngjarnan. Hér er fylgt sömu meiginreglu, sem fylgt hefir verið í 30 ár um slíkar atvinnugreinar. Hitt, að tollurinn komi aðallega niður á Norðmönnum, er ekki allskostar rétt. Verksmiðjan á Siglufirði stendur ekki á norsku, heldur hollensku fé. Veit eg það og, að önnur af stóru verksmiðjunum á Eyjafirði stendur ekki eingöngu á norsku fé, heldur líka fé frá öðrum löndum. Get eg ekki séð að þetta geti á nokkurn hátt spilt fyrir samningnum við Norðmenn út af kjöttollinum, því allir geta séð, að við fylgjum sömu reglu gagnvart þeim og öðrum.

Vona eg að háttv. Nd. samþykki þessar brtill. og afgreiði þær til Ed.