21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Einar Jónsson:

Flestir þingmenn munu hafa orðið varir við það, að hávaði þm. er óánægður með dagpeninga sína. En allir hafa hikað við „að hengja bjölluna á köttinn“, og er það máske vorkunn þeim, sem valtir eru í sessi en vilja þó gjarnan sitja. Eg fyrir mitt leyti er ekki svo hræddur við kjósendur mína, að eg þori ekki að greiða þessu frv. atkvæði.

Þótt háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) talaði í skopi um þetta mál, þá sagði hann það satt, að frv. miðar til að bæta kjör, sem þarf að bæta. Og það er aldrei nema rétt og virðingarvert að þora að bæta það, sem þarf að bæta, hvað sem Pétur eða Páll eða aðrir kjósendur æruverðir segja þar um.

Þótt háttv. þm. Dal. (B. J.) segi hætt við, að þetta frv. fjölgi Reykvíkingum á þingi, þá get eg varla skilið, að hann álíti það. Eg býst við, að menn kjósi Reykvíkinga ef þeim sýnist svo, en aðra ef þeim líkar það betur, hvað sem kaupmuninum líður. En hvað þingfararkaupinu viðvikur, þá vil eg sem minst fara út í einstök atriði þess. Og allra síst vil eg bera það saman við ferðakostnað viðskiftaráðunautsins, því hann er búinn að fá nógar ákúrur í dag, þó eg „bæti ekki gráu ofan á svart“. Honum mun bezt, að um það atriði sé talað sem fæst.

En frv. þessu mun eg gefa atkvæði mitt.