21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Guðlaugur Guðmundsson:

Þess ber að gæta að kaup alþingismanna var ákveðið 1843 og síðan hafa peningar fallið geysi mikið í verði. 3 ríkisdalir voru þá talsvert há borgun, en það vita allir að 6 kr. á dag nú orðið er ekki hærra kaup en miðlungi duglegur handverksmaður vinnur sér inn leikandi. Eg veit jafn vel dæmi til þess fyrir norðan, að sumarmánuðina eru boðin hærri verkalaun við almenna daglaunavinnu. (Sigurður Sigurðsson: í síldinni á Siglufirði). Í síldinni á Siglufirði segir þm. en eg miða ekki við það. Þó má vera að sú atvinna út frá sér geri það að verkum að almenn verkalaun verði hærri. Eg má fullyrða að fyrir meir en 30 árum kom það fyrir að tveir gildir bændur — eg get nefnt þá, það voru þeir Ólafur í Ási og Einar í Hraunum — vildu ekki gefa kost á sér til þingmensku vegna þess að þeir þóttust mundu skaðast á því. Og það þarf ekki að fara svo langt aftur í tímann, eg veit að fyrir fáum árum höfðu menn augastað á líklegum manni úr bændastétt, en hann vildi ekki gefa kost á sér, og það var af sömu ástæðu. Þetta gildir um þingmenn úr bændastétt. Þá má geta nærri hvernig þessu er varið um embættismenn, sem þurfa að kaupa dýra menn til að gegna starfi sínu meðan þeir eru fjarverandi. Það er auðvitað, eins og tekið hefir verið fram, að ekki er hægt að ætlast til að nokkur maður geti gert sér þingmensku að atvinnu, enda væri það óheppilegt. En hitt sýnist ekki meir en sanngjarnt að borgunin sé svo sæmileg, að þingmenn geti sloppið nokkurn veginn skaðlaust.

Mér finst því rétt í öllu falli að málinu verði leyft að ganga til 2. umræðu. Sennilegt er að tíminn leyfi ekki að það gangi fram á þessu þingi. En svo mikið mætti gera að það gæti orðið bending til stjórnarinnar að búa málið undir næsta þing.