31.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

17. mál, eftirlit með þilskipum

Jón Magnússon:

Það er eðlilegt, að hv. 1. þm. Rvk. (L. B. H.) gæti ekki sagt mikið um manntjónsmuninn á frönsku skútunum og íslenzku skipunum. Það stendur ekkert um það í skýrslu landlæknis. Eg hefi átt tal við hann og hefir hann sagt mér, að hann hafl ekki getað komið þeim samanburði að, vegna þess að honum hafi ekki borist upplýsingar þar að lútandi fyr en skýrslan var komin á prent.

Eg gat ekki sannfærst af ræðu háttv. þm. um það, að rétt væri að gera undantekningu með Gullbringusýslu, að því er skoðunarmenn snertir. Það er mjög mikil útgerð í sýslunni og það virðist nokkuð hart að heimta það af skipum úr Hafnarfirði að þau sigli af ágætis höfn inn í miklu lakari höfn, til þess að skoðun fari þar fram. Þessi sýsla gæti líka ósköp vel, þótt hún hefði skoðunarmenn út af fyrir sig, valið þá úr Reykjavík, þar sem mest er völ á þeim svo að eg get ekki séð að röksemdir hv. þm. í þessu efni séu mikils virði. Það gæti líka verið skoðað sem lítilsvirðingarmerki á þessari sýslu, ef hún yrði tekin undan.

Ekki get eg heldur kannast við að það sé rétt hjá háttv. þm. að heppilegra sé að skipin séu skoðuð þar sem þau eigi heima. Það gœti orðið talsverð óþægindi og kostnaðarauki að því, t. d. ef skipið liggur hér í Rvk, en er gert út frá alt öðrum stað af landinu. Líka vil eg geta þess, að ákvæðið er nokkuð óglögt. Skipið getur átt heima t. d. í Gullbringusýslu, þótt það sé gert út hér. Hvar á þá skoðunin að fara fram? Eg vildi, sem sagt, helzt að þetta ákvæði félli burtu. Þessar athugasemdir mínar eru, eins og hv. þm. tók fram, als ekki af því sprotnar, að eg vilji málinu illa. Þvert á móti. Eg vil einmitt að frv. gangi fljótt fram, og helzt áður en lokið er öðru máli, sem liggur fyrir háttv. Ed. — ekki samt frv. um öryggi skipa heldur annað frv., sem fer mikið lengra en þetta hér. Mér er ekki kunnugt um, hvernig því líður — hefi ekki spurst fyrir um það.

Loks skal eg geta þess, að þótt eg sé ekki kunnugur útgerðinni á Vestfjörðum, þekki eg talsvert til á Eyjafirði, en á þeim stöðvum er — auk Reykjavíkur — mesta skipaútgerð á landinu. Eg hefi því fullan rétt til að segja, að útbúnaður á íslenzkum þilskipum er fult eins góður og á erlendum — og eg byggi það ekki aðeins á mínum eigin dómi. Eg hefi spurst fyrir það hjá manni, sem hlýtur að vera því mjög kunnugur og eg efast ekki um að hefir gott vit á þessu máli. Það er kaupmaður Geir Zoëga. Hann hefir sagt mér, að íslenzk þilskip standi erlendum skipum að engu leyti að baki. En þar með er ekki sagt, að betra eftirlit, en verið hefir, sé óþarft. Einmitt þegar þess er gætt, að hér er sjór mikið verri og veðurhættan meiri en annarsstaðar. Þess vegna er það bráðnauðsynlegt að gera fyrirskipanir sem tryggja það, að allur útbúnaður sé sem bestur.