17.08.1912
Efri deild: 27. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Jósef Björnsson:

Mál þetta, sem hjer liggur fyrir alþingi, er fullkomið nýmæli, og því full von, að litið sje á það á ýmsan hátt, enda kom það bert fram í Nd. og í ræðu háttv. 3. kgkj. þm., að til er önnur hlið málsins en sú finansíella eða sú, að afla landssjóði tekna. Jeg á hjer við hina siðferðislegu hlið málsins, og mun jeg lýsa skoðun minni á þeirri hlið þessa máls, því að hún er enn þýðingarmeiri fyrir allan almenning.

Þegar menn kaupa sjer lotteríseðil, er vafalaust lagt út í fjárhættu, og, að stuðlað sje að slíku, eða að það sje leyft, er frá siðferðislegu sjónarmiði rangt. Með þessu vil jeg þó ekki sagt hafa, að rangt sje að samþykkja frumv. það, er hjer liggur fyrir. Þegar um það er að ræða, þá kemur til greina, hvort þjóð vor er laus við fjárhættu þá og siðspillingu, sem lotteríi fylgir, svo að þjóðin kynnist þessu þá fyrst, ef frumv. nær fram að ganga. Til þess að ganga úr skugga um þetta, og geta tekið afstöðu um málið, verðum við að líta kring um okkur og sjá hvar við stöndum. Fjárhagur lands vors, er eins og háttv. framsögum. hefur tekið fram í ræðu sinni, þannig vaxinn, að full þörf er á tekjunum, sem frumv. veitir. Og lítum vjer nú í kring um oss, þá virðist mjer augljóst, að af frumv., sem fyrir liggur, stafi engin ný og sjerstök hætta fyrir þjóðina umfram það, sem nú er.

Síðan samgöngur vorar við umheiminn urðu meiri, þá má segja, að inn á þjóðina hafi streymt bæði ilt og gott frá öðrum þjóðum. Vjer höfum borizt inn í strauminn og erum staddir í honum. Eitt af því, sem hingað er þannig komið, er fjárhættuspil. Alstaðar um heiminn eru menn fíknir í fjárhættuspil, og í því erum vjer sjálfsagt ekki undantekning; eins og háttv. framsm. gat um; þá munu þeir Íslendingar eigi allfáir, sem spila í útlendum lotteríum. En þar eð þetta eru útlend lotteri, fer fjeð, sem til þess gengur, út úr landinu. Það virðist því ekki nema eðlilegt, að menn vilji, að þjóðin fái eitthvað af þessu fje sínu aftur, og það er tilraun í þá átt, sem hjer er verið að gera. Vjer getum ekki varnað því, að spilað sje í útlendum lotteríum, því jafnvel þótt það væri bannað með lögum, þá væri hætt við, að því yrði ekki hlýtt. Fjárhættu þeirri, er einstakir menn stofna sjer í með þessu, getum vjer því ekki spornað við, nje siðspillingunni, sem því fylgir. En úr því svo er, þá er rjettara að hafa peningahagnaðinn og fá íslenzkt lotteri, sem gefur landssjóði tekjur, heldur en að útlendingar dragi allan gróðann til sín. Þess vegna hallast jeg að þessu frumv. og jeg geri það því fremur, þar sem hagur landssjóðs er bágborinn og þingið verður að hafa einhver úrræði til að auka tekjur hans. Og þótt það sje ekki sem allra skemtilegast, að afla landssjóði tekna á þennan hátt, þá verður að taka því, úr því menn þjóðarinnar hætta fje sínu, hvort sem er, í lotteríspil.

Jeg vil nú minnast lítið eitt á peningahlið málsins. Jeg hefði óskað, að tekjurnar af að stofna lotterí hefðu orðið meiri en ráð er fyrir gert. Þau 4%, sem landssjóður fær af verði seldra seðla, er lítið, ef vel gengur með söluna, þótt jeg játi, að lágmark gjaldsins sje sæmilegt. Selji leyfishafar alla hlutina, fæ jeg ekki betur sjeð. en að hlutdeild landssjóðs sje mjög svo lítil, aðeins 1/7 hluti af tekjum lotterísins, og er því ekki nema æskilegt, að reynt sje að heimta meri hlutdeild af landssjóðs hálfu eins og bent hefur verið á í blaði einu hjer í Reykjavík. Jeg efa hins vegar ekki, að nefndirnar í máli þessu bæði í háttv. Nd. og hjer í þessari háttv. deild, hafi gert sitt til þess, að komast svo langt, sem auðið var. En leyfishafar hafa ekki viljað ganga lengra en þetta.

Háttv. framsm. (Jens Pálsson) mintist á, að fara mætti fram á stígandi hækkun í prócenta, ef vel seldist, en það tel jeg ekki æskilegt, því að þá mundu leyfishafar heimta lækkun prócenta, ef illa seldist, og lágmark gjaldsins gjört enn lægra en nú er. Þetta tel jeg ekki til bóta, því það er ekki gott að segja um, hve mikið selst, og því tel jeg rjettara, að hafa gjaldið fast heldur en tilfærilegt, og er jeg því sammála nefndinni um þetta atriði.

Jeg er ekki með öllu ánægður að fara þessa leið, en þar sem jeg sje engan mögulegleika að vernda þjóð vora frá lotteríspili, þótt ekki sje neitt íslenzkt lotterí til, og landið hefur hagnað af að hafa íslenzkt innlent lotterí, en ekkert nema skaðan einan af að spila í útlendum lotterium, sem ekki verður varizt að gert sje, þá mun jeg greiða atkvæði með málinu.