15.08.1912
Efri deild: 25. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurður Stefánsson (framsögum.):

Það þarf ekki langan tíma til þess, að rœða þetta mál nú, það var svo rækilega rœtt við 2. umr., og jeg hef litlu við að bæta nú. Hjer liggja frammi í deildinni 2 breytingartillögur á þsk. 250 og 259. Þessar tillögur hefur nefndin ekki haft tíma til að athuga. Önnur kom hjer fram í fám mínútum fyrir fund, en hin ekki fyr en á fundinum. Jeg vil geta þess um leið, að nú er lagður niður sá siður, sem hjer hefur verið áður, að láta þingsveina bera út breytingartillögur þingm. daginn áður, en þær komu til umræðu. Kom þetta sjer oft vel. En nú koma þær ekki fram fyr en á þingfundunum, þótt þær sjeu prentaðar nægilega snemma. T. d. var þsk. 250 prentað um miðjan dag í gær. Jeg vildi geta þessa skrifstofunni til athugunar.

Nefndin hefur lítillega borið sig saman við háttv. flutningsmenn breyttill. á þskj. 250, og hefur hún eða meiri hluti hennar komið sjer saman um, að taka breyttill. til greina. Að vísu fer hún fram á talsverða breytingu, þar sem kaupið er hækkað úr 9 kr. í 10 kr. Það sýnir, að háttv. þingm. þykir þörf á því, að fara hærra, en nefndin áleit, að fært væri að sinni. En mjer fyrir mitt leyti þykir „redaktionin“ á greininni ekki viðkunnanleg. Það hefði verið miklu hreinlegra, að kaup þingm. hefði hreint og beint verið ákveðið 8 og 10 kr. á dag. En eins og greinin er, þá fer hún í kring um efnið, án þess að breyta því á annan hátt, nema hvað kaupið er hækkað. — En nefndin ætlar alls ekki að gera þetta að neinu kappsmáli.

Um br.till. á þskj. 259, hefur nefndin ekki borið sig saman. Get jeg því ekki sagt neitt um hana fyrir nefndarinnar hönd. En í frumv. okkar flutningsmanna var sama upphæð og þingm. Árn. hjer stingur upp á.

Fjárhæðin er miðuð við 4 dagleiðir til þings og frá þingi. Fylgdarmaður reiknaður með 4 kr. á dag og 4 hestar á 2 kr. Alls fara í ferðalagið fram og til baka í bæði skiftin 16 dagar. 12 kr. á dag í 16 daga gera akkúrat 192 kr., en þessum 2 kr. var slept til þess að láta standa á tug, eins og alstaðar var gert í frumvarpinu.

En persónulegan kunnugleik vantar mig um það, hvort hjer sje um hæfilegar 4 dagleiðir að ræða, og get því ekki staðhæft neitt í því efni. Jeg hef farið að Þjórsárbrú, en lengra nær ekki mín þekking; en þangað veit jeg að er ekki fullkomin dagleið vel hestaður. Nefndin hefur enga afstöðu sett sjer í þessu atriði; um það greiðir hver nefndarmaður atkv. eins og honum bezt líkar.

Þá vildi jeg minnast á nokkuð, sem mjer láðist að geta um við 2. umr. Í frumv. er talað um 15 daga ferð til og frá Danmörku, í stað þess að það eiga að vera 30 dagar. Vil jeg geta þess, svo það komi hjer fram, því 15 dagar munu standa í þingtíðindunum, þótt á útreikningunum megi sjá, að ætlazt er til að það sjeu 30 dagar.

Frekar hef jeg ekkert um þetta að segja. Jeg vil að eins bæta því við, mönnum til hugnunar, að það er öðru nær, en að það sje mjer nokkurt kappsmál, að frv. þetta komist í gegnum þetta þing, einkum ef ekkert af þeim tekjufrv., sem fyrir þinginu eru, nær fram að ganga. Vil þá gjarnan, að þetta frv. biði, þótt kostnaðaraukinn sje í sjálfu sjer svo lítill, að hann muni hvorki til nje frá. Jeg tek það fram, að eins fyrir mig, að jeg læt mjer á litlu standa, þó svo fari, að frv. þetta verði ekki að lögum í þetta sinn.