15.08.1912
Efri deild: 25. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Steingrímur Jónsson:

Við 2. umr. þessa máls var talað talsvert um skjálfta og skrekk, og get jeg því ekki látið hjá líða að gera grein fyrir því, hvers vegna jeg er flutningsmaður þessa frumv., því ella yrði mjer kanske brugðið um ragleik.

Ástæðan er sú, að jeg áleit, að fæðispeningar þingmanna, þeir er þeir nú hafa, væru svo litlir, að bæði væri það skaðlegt fyrir þingið og vanvirða.

Þetta hefur verið tekið skýrt fram af meðflutningsmanni mínum, svo jeg skal ekki fjölyrða um það.

Að jeg ekki fór fram á meira en 3 kr. hækkun, kom af því, að jeg áleit, að bóndi, sem væri t. d. búsettur á Norðurlandi, gæti með þessari hækkun fengið sæmilegt dagkaup.

En þessi 3 kr. hækkun er 120 kr. hækkun á daglegum fæðispeningakostnaði þingsins, og þar sem ætla má, að starfsdagar reglulegs þings, að viðbættum ferðalögum þingmanna, sem eiga heima utan Rvíkur., verði um 80 dagar að meðaltali, mundi hækkunin nema 9600 kr. — Mjer er hjer fengið í hendur skjal, sem segir, að starfsdagar reglulegs þings sjeu 67 dagar; jeg kannast við þá tölu, en hygg hina töluna þó rjettari, þar sem bæta verður við ferðadögum og biðdögum fyrir þingmenn utan Reykjavíkur. — Þess vegna lagði jeg það til, að þingmenn búsettir í Reykjavík fengju lægra kaup, til þess að hækkunin yrði sem minst tilfinnanleg, og áleit hins vegar, að þeir væru eins vel sæmdir með 6 kr. sem hinir með 9 kr.

Þessvegna gat jeg ekki sjeð neitt ranglátt í þessu, en játa það hins vegar, að það leit óviðkunnanlega út, og gæti ef til vill orðið til þess, að agiterað verði fyrir Reykvíkingum sem þingmannaefnum.

Einn þingmanna sagði, að þetta lága kaup mundi ekki hafa fælt nýta menn frá þingstarfinu. Um það get jeg að vísu ekki sagt neitt alment, en jeg veit hinsvegar, að margt nýtt þingmannsefni hefur hikað við að bjóða sig fram, t. d. bændur nyrðra, og jeg get sannað, að margur góður maður hefur haft efnalegt tjón af þingmennsku sinni. Þetta veit jeg að er rjett.

Að af þessari hækkun á kaupi þingmanna leiði hækkun launa annara starfsmanna, get jeg ekki sjeð, nema því aðeins þá, að nauðsyn krefji þess, og þá er afleiðingin ekki ill.

Hvað snertir breytingartillögu á þgskj. 250, þá mun jeg greiða henni atkvæði, þar sem hún bætir úr þessu lága kaupi fyrir þingmenn þá, sem búsettir eru í Reykjavík. Aðeins skal jeg vekja athygli á því, að hún hefur í för með sjer dálitla niðurfærslu á kaupi þingmanna utan Reykjavíkur. Því þegar við flutnm. frumvarpsins ákváðum 9 kr. fæðispeninga fyrir allan tímann, þá gengum við út frá því, að allir þingmennirnir ferðuðust með skipum og ætluðum þá 4 kr. í kostpeninga, en ætluðumst ekki til, að þeir peningar yrðu færðir á ferðakostnaðarreikninginn eins og hingað til. En þessi niðurfærsla vinst upp með þeim 2 kr., sem þingmönnum utan Reykjavíkur eru ætlaðar um sjálfan þingtímann.

Hvað snertir breytingartillögu á þgskj. 259, býst jeg við því, að jeg eigi bágt með að vera á móti henni, því hún er alveg í samræmi við mín fyrri orð.

Jeg viðurkenni, að þingmaður geti ef til vill setið á þeim stað í kjördæminu, að þessi upphæð verði of lítil, en þá má væntanlega bæta úr því með ákvæðum frumvarpsins um uppbætur, þegar tafir eða hindranir ber að höndum. Upphæð sú, sem nefndin stingur upp á fyrir Vestur-Skaftafellssýslu, kemur ekki vel heim við t. d. ferðakostnað fyrir þingmenn, er sitja á útkjálkum Eyjafjarðar- eða Þingeyjarsýslu. Þannig er fullkomlega eins langt til Húsavíkur nyrst af Langanesi, eins og úr Vík til Reykjavíkur.