24.08.1912
Efri deild: 36. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Jón Jónatansson:

Frumvarp þetta, sem hjer liggur fyrir, mun vera framkomið, af því að þeim, sem það hafa flutt, hefur virzt ástæða til, að þingið reyndi að finna einhver úrræði til að bæta úr þeim vandræðum, sem óhjákvæmilega hljóta að leiða af þessari miklu verðhækkun á steinolíunni; enda mun mörgum hafa þótt það ill tíðindi, er hljóðbært varð hjer um þessa verðhækkun. Þessi tíðindi hafa sannað mönnum og sýnt, að hjer á landi er komin einokun á steinolíuna, þótt ekki sje hún löghelguð, og að þetta einokunarfjelag, þessi einokunarblóðsuga, hefur náð hjer föstu taki, og hún ætlar nú að neyta þess óspart, og í fullri alvöru. Kaupmennirnir, er hrópa hástöfum um frjálsa verzlun, og var ætlandi að reynast forverðir hennar og frjálsrar samkeppni, hafa gerzt liðsmenn einokunarinnar bæði beinlínis og; óbeinlínis, því svo má heita, sem þeir hafi viljugir rjett hálsinn fram undir okið.

Jeg tel vera fylstu og brýnustu ástæðu til að athuga það rækilega, hvort ekki sje hægt að gera hjer eitthvað til lagfæringar. Ekki sízt er ástæða til þess að leita einhverra úrræða, ef enn er nýrrar hækkunar að vænta, sem mælt er að steinolíufjelagið hafi hótað. Það er að vísu sagt nú, að forstjóri fjelagsins hjer neiti þessur segi enga nýja hækkun í vændum, en á þeim ummælum hans er lítið að byggja, og sízt að furða, þó hann láti lítið yfir nýrri hækkun, er hann býst við, að þingið láti til sín taka um málið.

Ýmsir hafa gert lítið úr þeirri hættu, er stafi af hækkuninni, og álíta, að þingið eigi ekki að skifta sjer af henni, en það er ekki rjett, því þessi hækkun á verði steinolíunnar er eyðileggjandi fyrir vjelarbátaútveginn. Sumir hafa viljað bera þetta saman við verðhækkun ýmsrar annarar vöru, og hafa talað mikið um, að þingið hafi ekki verið að skifta sjer af því, þótt hinar og þessar vörur hækkuðu í verði. En þetta er ekki sambærilegt; almenningur getur miklu betur þolað verðhækkun á ýmsum öðrum vörum, og oft með því að minka kaup á þeim. En þessi vara er einmitt lykillinn að bjargræðisvegi fjölda manna, og með mikilli verðhækkun á þessari vöru er loku skotið fyrir atvinnu fjölda manna, þar sem mótorbátaútgerðin er. Þá er því haldið fram af sumum, að þessi verðhækkun sje alls ekki hættuleg fyrir vjelarbátaútveginn, en jeg vil leyfa mjer að benda á ummæli milliþinganefndarinnar í skattamálunum, um að steinolían þoli ekki tollálögu. Nefndin hafði um eitt skeið í hyggju, að leggja toll á steinolíu, en hún hvarf frá því ráði, því við nánari athugun komst hún að þeirri niðurstöðu, að sá tollur mundi íþyngja vjelarbátaútgerðinni um of, „og gæti jafnvel riðið henni að fullu“, og þó hafði nefndinni ekki dottið í hug, að leggja svo háan toll á olíu, sem verðhækkun þessi nemur. En ef það var ófært, sem jeg tel rjett athugað af nefndinni, að leggja lágan toll á olíu, halda menn þá, að hún þoli 5 króna skattaálögu á tunnu hverja til handa útlendu miljónafjelagi? Eg hygg ekki.

En úr þessu verður að ráða. Alþýða þolir ekki þessa álögu, og alþingi hefur svo mikið rætt nú um vandhæfi að finna gjaldstofna handa sjer, að það ætti ekki að láta útlent fjelag taka að óþörfu svo háan skatt.

En menn greinir á um úrræðin, og er það sízt að furða, því enn er ekki fengin vissa fyrir, hvernig stendur á þessari verðhækkun. Menn vita ekki, hvort verðhækkunin er almenn eða ekki. Ef hún er almenn um allan heim, er ekkert hægt að gera, en ef hún er það ekki, þá ætti það að vera hægt, og væri þá ilt að vita til þess, ef það stæði á aðgerðum þingsins, eða aðgerðaleysi rjettara sagt, að ekki væri hægt að hefta skaðann hjer. Eg tel sjálfsagt, að bæði landsstjórn og alþingi geri hvað unt er í þessu efni. Að minsta kosti má ekki slíta svo þessu þingi, að ekki sje reynt að opna líklegan veg til úrræða, er fara mætti, ef svo reynist, að verðhækkun þessi er ekki annað en ósvífin tilraun þessa olíufjelags til að ná enn meiri gróða í sinn vasa.

Frumv. það, er hjer liggur fyrir, er ekki sem bezt í garðinn búið, og jeg býst ekki við, að það komi að miklu liði, eins og það er nú.

Hæstv. ráðherra lýsti því yfir við umræðu máls þessa í háttv. neðri deild, að hann áliti, að lögin, eins og þau eru nú, gætu ekki orðið framkvæmd, svo lið væri að. Og þótt jeg nú beri hið bezta traust til stjórnarinnar, þá ber jeg þó ekki betra traust til hennar en hún sjálf gerir; jeg verð líka að álíta, að frumvarpið yrði gagnslaust með öllu eins og það liggur fyrir, og vænti þess ekki, að stjórnin vinni neitt gagn með þeim lögum, sem hún hefur lýst yfir að ómögulegt væri að framkvæma.

En þó að sú leið sje ekki fær, er frumv. gerir ráð fyrir, þá ætti að mega leita annara úrræða. Eða vill stjórn og þing ekkert gera í málinu? Því trúi jeg ekki. Jeg verð að álíta, að laga mætti frumvarpið svo í hendi sjer, að það yrði að gagni, og í því skyni hef jeg ásamt nokkrum öðrum þingdeildarmönnum þegar komið fram með breytingartillögu, sem hefur verið útbýtt, en verður auðvitað ekki rædd nú, þar sem þetta er 1. umr. um málið.

Vitanlegt er það, að tíminn er nú orðinn mjög stuttur, en þó trúi jeg ekki öðru, ef háttv. deild vill eitthvað gera í þessu máli, en að enn geti unnizt tími til og það verð jeg að telja illa farið, því það er mikið í húfi, að þessari verðhækkun verði afstýrt. Og þeim mun verra er þetta, sem það er bundið nokkurri fjárhættu, að afstýra þessu. Við vitum, að steinolían rýrnar við geymslu og auk þess er vaxtatap á fje o. fl. En jeg sje, að það er komin fram breytingartillaga, er bætir úr þessu.

Mjer finst, að þeim háttv. þingmönnum, er hafa það á móti máli þessu, að laga smíðin verði ekki sem vönduðust vegna naums tíma; fögin hljóti að verða flaustursverk, og því gölluð, og þess vegna ekki notandi, fari svipað og manni, er væri búið að bregða snöru um háls honumr og vildi hann bjarga sjer með því að skera á snöruna. Hann sjer hníf rjett hjá sjer en dálítið skörðóttan; en þegar hann sjer smáskörð í egg hans, hikar hann við og telur sjer trú um, að ekki tjái að brúka hann, fyr en búið sje að brýna hann og slípa. Ætli ekki, að snaran gæti runnið að á meðan á brýnslunni og slípingunni stæði, svo að þegar búið væri að brýna og slípa hnífinn, að þá væri þessi varfærni og forsjáli maður dauður. Slíkt má ekki henda okkur hjer í háttv. deild.