07.08.1912
Efri deild: 17. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

15. mál, útrýming fjárkláðans

Eiríkur Briem:

Mjer þykir nokkuð viðurhlutamikið, að hv. nefnd skuli leggja það til að fella frumv. þetta; mjer finst það sama sem að segja, að þingið vilji ekkert við málið eiga. Því jeg sje ekki, að þingsályktunartillagan bæti nokkuð úr skák, að því er þetta efni snertir.

Það er tekið fram í 2. lið tillögunnar, að sýslumenn skuli láta fara fram um land alt kláðaskoðun í næstk. aprílmánuði og senda stjórnarráðinu til athugunar allar skýrslur þar að lútandi. En mjer er með öllu óskiljanleg sú tröllatrú, sem menn hafa á þessum skýrslum, það er þó vitanlegt, að kláðinn lifir miklu víðar, en ætla mætti eftir skýrslunum.

3. lið þingályktunarinnar álít jeg fara alveg í skakka átt, Mjer virðist það öldungis ómögulegt, að einstök hjeruð geti gert samþyktir um útrýmingu fjárkláða, þar sem vitanlegt er, að fje gengur saman úr sýslum, t. d. Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu; og slíkar samþyktir gætu því á engan hátt orðið annað en hjegómi. Á þinginu í fyrra var samþ. þingsályktun hjer í efri deild, sem fór fram á það, að frv. yrði lagt fyrir aukaþingið 1912 um þrifabað; það hefur reyndar ekki verið gert, heldur farið lengra. En jeg get ekki betur sjeð, en að gera mætti einhverjar breytingar á því frumvarpi, sem nú liggur hjer fyrir, ef hv. deild þóknaðist; en þetta, að fella frumv., tel jeg sem sagt með öllu óviðunandi.

Hv. ráðherra mintist á það, að skýrslurnar kæmu svo seint til stjórnarinnar, að hún gæti ekki undirbúið málið, og um það atriði, er eg honum alveg samdóma.