12.08.1912
Efri deild: 22. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

91. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jens Pálsson (flutningsm.):

Frumv. þetta er fram borið í þeim tilgangi, að nægilegt gagn verði að þeim mönnum, sem taka sjer fram um það, að koma upp um landhelgisbrot, og þegar brotin sannast, þá sje þeim útveguð vissa um það, að þeir vinni ekki fyrir gíg, þó þeir leggi eitthvað í sölurnar; að mönnum sje gefin hvöt til þess, að hjálpa til eftir megni, að vera á verði gagnvart landhelgisbrotum. Ef ske kynni, að hægt væri með þessu móti, að hvekkja botnvörpunga burtu frá vissum svæðum, teldi jeg miklu áorkað fyrir bátfiskiveiðar. Því hefur verið hreyft við mig af mörgum skýrum mönnum í mínu kjördæmi, að ef haft væri auga á botnvörpungunum úr landi, og ötullega gengið fram í því, að fylgja þeim eftir á sjónum og athuga, hvað þeir aðhafast, er þeir sveima um í bersýnilegri landhelgi, þá mundi veri hægt að afstýra því mikið, að botnvörpungar geri sjer það að venju, að níðast á landhelgissvæðunum. — Fyrir þessu er nokkur reynsla frá einu fiskisælasta miði hjer nærlendis, frá Garðssjó. Það var í hitt eð fyrra mjög mikill afli hjer syðra á tímabilinu júní—júlí; 2 eða 3 mótorbátar fóru þarna daglega um, því að þeir stunduðu fiskiveiðar rækilega. Þeir höfðu auga á botnvörpungunum, sem þar voru á sveimi, og kærðu eitt sinn brot, sem þar var framið. Og með því nú botnvörpungarnir vissu af þeim á þessum slóðum dag og nótt, og vissu, að tekið var eftir þeim, þá fluttu þeir sig burtu og hurfu gersamlega frá, meðan svo stóð. En er mótorbátarnir hættu að vera á þessari slóð, voru botnvörpungarnir óðara komnir og ljetu greipar sópa upp við landssteina. Oft heyrast þar suðurfrá kvartanir um þetta, bæði manna á milli og á fundum, hve illa þetta sje farið, hve hvötin sje einkar lítil til þess fyrir menn, að taka sjer fram og hjálpa til við strandgæzluna, og þannig afla landssjóði tekna. — Komið hefur það fyrir, að menn hafa komið upp um brot; þeir hafa þá þurft að fara út á mið og sanna brotið, og vinna eiða. Alt þetta hafa þeir mátt gera án þess að fá eyrisvirði fyrir. Ef þeim er stefnt til sýslumannsins í Hafnarfirði til vitnisburðar eða eiða, þá hafa þeir þó fengið eitthvað fyrir ómak sitt. En vel getur verið, ef þeir fara að gefa sig við þessu, þá þurfi þeir miklu að sleppa. Ekkert líklegra t. d., en þeir þurfi að sleppa róðri. Jeg hef borið mig saman við háttv. þm Akureyrar, sem er lögreglustjóri norður þar, og álítur hann, að lög sem þessi gætu stutt að því, að landhelgisbrotin þar færu þverrandi.

Jeg ætla ekki að fara fleirum orðum um þetta mál. En þar eð jeg álít það mjög einfalt, þá tel jeg ekki þörf á því, að því sje vísað til nefndar. Jeg vona, að háttv. deildarmenn geti áttað sig á frumv. án þess. Annars vona jeg svo góðs af háttv. deild, að hún líti með góðgirni á frumv., og meti tilgang þess og lofi því fram að ganga.