13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

71. mál, kolatollur

Ágúst Flygenring:

Jeg vona, að hin háttv. deild virði mjer það til vorkunar, þótt jeg hafi nokkuð aðra skoðun á frv. þessu en þeir, er talað hafa.

Jeg sat í milliþinganefnd þeirri, er skipuð var til að athuga ýms fjárhagsmál landsins, og nefnd þessi byggði á alt öðrum grundvelli en þeim, er hjer hefur komið fram. Eins og kunnugt er, lagði nefndin til, að tekið væri upp einkaleyfi á kolum og steinolíu, en að þessu frumv. hefur verið kastað alskonar hnútum og beitt hinu mesta ofurkappi til að fá það drepið. Frumv. liggur nú í brjefaskrínunni fyrir ofurkapp þetta, er mest var sprottið af eigingirni einstakra manna og pólitískri illgirni annara.

Jeg er ekki á móti frumv. því, er hjer liggur fyrir, af sömu ástæðum, sem lögð hefur verið sjerstök eða mest áherzla á, eins og t. d. því, þegar háttv. 2. þm. G.-K. var að lofsyngja Frakka fyrir það, hve mikinn myndarskap þeir hefðu sýnt í því, að breyta útgerð sinni úr seglskipum í stóra og góða botnvörpunga; það getur auðvitað verið ágætt fyrir þá, en jeg get ekki sjeð, að okkur Íslendingum sje nokkur hagur í því. Botnvörpungar þessir ausa hjer upp fiskimiðin og það oft fyrir innan landhelgi, og þessi veiði þeirra þýðir ekkert annað en þjóðartap fyrir okkur. Það er satt, að þeir hafa gert mikið fyrir veiðina en það hafa þeir gert fyrir sig, en ekki okkur, þeir hafa t. d. reist spítala hjer í Reykjavík, sem er sniðinn fyrir franska fiskimenn og þeim einum ætlaður, en þeir, sem hafa þar verið af innlendum mönnum, lofsyngja hann ekki mikið, enda er spítali þessi lokaður mestan hluta árs. Til þess að fyrirbyggja misskilning skal jeg: geta þess, að jeg á ekki við Landakotsspítalann, hann er af alt öðru bergi brotinn.

Verzlun Frakka hjer við land hefur frá alda öðli verið sama sem engin. Þegar fiskiskipin þeirra hjer fyrrum fiskuðu fyrir sunnan land á vertíðinni og fyrir vestan að sumrinu, þá umhlóðu þau fiskinum hjer í Reykjavík; aðalviðskifti þeirra þá voru myglaðar brauðkökur, sem þeir reyndu að selja en fáir vildu kaupa. Það er því alveg fráleitt að taka nokkurt tillit til verzlunar þeirra við landsmenn. Eins og kunnugt er, þá verðlauna Frakkar fiskinn, sem þeir sækja hingað, en það er ekki nóg með það, heldur krefjast þeir þess einnig, að skipin, er verðlaunin fá, kaupi franskar vörur og verzli við franska menn; þess vegna hafa þeir meðal annars sett upp franska selstöðuverzlun hjer í Reykjavík, og þar með hafa þeir þá útilokað alla verzlun við Íslendinga.

Jeg get ekki talað um þetta mál frá því sjónarmiði, að varhugavert sje, að leggja toll á kolin af þeirri ástæðu, að útlendingar hættu að fiska hjer, því þó svo færi, yrði það sízt skaði fyrir oss. Eg þykist þess fullviss, að sá kolatollur, sem hjer er farið fram á, hefti ekki komu botnvörpunganna hingað til landsins, — Á síðasta áratug hafa kolin verið í mjög mismunandi verði, og sá verðmunur numið mikið meiru en 1—2 kr. Útsöluverð kola hefur verið hjer í Reykjavík alt frá 20—30 kr. tonnið. Uppí 30 kr. komst það hjer fyrir nokkrum árum án þess verkfall í Englandi olli verðhækkuninni, og ekki virtist það neitt draga úr útvegnum þá, þó þessi nauðsynjavara væri í svo gífurlega háu verði.

Það eru aðrar ástæður að minni hyggju, sem gera kolatollinn óheppilegan. Menn verða að athuga, að ekki er það nema helmingur kolanna, sem útlendingar kaupa. Hitt fer til landsmanna sjálfra. Eigi tel jeg það ná nokkurri átt, að þeir góðu herrar útlendingarnir, sem hjer veiða við landið, geti komizt undan að borga tollinn með því að hafa kolaskip utan hafna, jafnvel ekki úti á „Sviðinu“ í Faxaflóa, eins og sumir hafa látið sjer um munn fara. Slíkt er fjarstæða, sem engum skynbærum manni ætti að geta dottið í hug. Enginn skipseigandi, og því síður ábyrgðarfjelag mundi leyfa slíkt. Að nota skip til þess, gæti ekki skoðazt öðruvísi, en sem tilraun til að sökkva skipunum. Aðalástæðan á móti því, að þessi kolatollur komist á, hún er sú, að kolin nota langmest, eða nær því eingöngu, vissar stjettir í landinu. Sveitirnar allar nota hverfandi lítil kol, og sleppa því næstum alveg við þessa álögu. En aftur er það fólkið í kauptúnum og sjávarþorpum. Það hefur ekki öðru að brenna en kolum; því þótt áður hafi verið hægt að komast af án kola, þegar brent var þangi og þara og öðru slíku, þá þýðir ekki að láta sjer detta slíkt í hug nú. Vitanlega voru aðrar kröfur gerðar til lífsins fyrrum heldur en nú, enda hafa húsakynni og aðrir lífernishættir breyzt mjög til þæginda og í siðmenningaráttina á síðari árum. Það þykir nú heldur ekki nýtízkuhúsakynnunum viðunanlegt eldsneyti, sem menn komust af með fyrir um 30 árum síðan.

Þá verða menn líka að taka tillit til íslenzku botnvörpuútgerðarinnar; athuga, hvernig þessi tollur kemur niður á henni. — Nú er heldur ekki nóg með, að tollurinn leggist á kolin, heldur er lagt á þau líka; þannig hækka þau meira í verði en tollinum nemur. Það er augljóst, að hann íþyngir útgerðinni grimmilega, og gengur beint á móti undanfarandi stefnu þingsins, þeirri stefnu, að hlynna að og styðja framleiðsluna í landiuu. —

En það, sem þó kynni að geta komið mjer til þess, að greiða atkvæði með þessum tolli, það er að segja, ef tollurinn yrði færður niður í 1. kr. á tonn, er sú knýandi þörf sem nú er á því, að einhverjar tekjur komi í landssjóðinn. Verði ekkert annað uppi standandi af tekjuaukafrumv., sem nú eru fyrir þinginu, þá er að grípa til þessa frv. sem neyðarúrræðis. Hin frv., sem komið hafa fram í þinginu, og ganga í sömu átt og þetta, þau eru skárri yfirleitt, því þau spenna jafnt eða jafnar yfir gjaldþol landsmanna; þau ná til allra stjetta en íþyngja ekki eingöngu einum einasta atvinnuvegi. Mest er umvert í allri skattalöggjöf, að skattarnir komi sem jafnast og rjettlátlegast niður, það er að segja hinir almennu skattar; og ekki sízt ber að gæta þess, að íþyngja engri þeirri vöru, eða atvinnugrein, sem eykur framleiðsluna í landinu. — Eflaust lægi beinna við, þegar peninga vantaði í landssjóðinn, og ef menn endilega vildu ná sjer niðri á efnamönnunum, að leggja þá á beina skatta, svo sem tekjuskatt eða eignaskatt. En þetta, sem hjer er farið fram á, getur orðið til hnekkis atvinnuvegi, sem er í byrjun, og enn stendur höllum fæti, ef móti blæs. Ætti fremur skilið styrk og uppörfun, eins og venja er, meðan nýju atvinnuvegirnir eru að ryðja sjer til rúms.

Hef jeg þá skýrt frá afstöðu minni til þessa máls, og hvernig á því stendur, að jeg get ekki verið með þessu frumv. nema það sje tekið sem hreint neyðarúrræði þe ar á síðustu stundu, þegar hin skattafrumvörpin eru fallin. Álít því bezt, að flutn. maður geymdi 3. umr. þessa máls, unz sjeð er fyrir endann á þeim.