29.07.1912
Efri deild: 11. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

39. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jósef Björnsson:

Jeg skal reyna að vera við tilmælum háttv. flm. um að tala hitalaust; hann talaði stilt og gætilega, þó hann kæmi víða allhart við.

Sammála er jeg hinum háttv. flm. um það, að skoðanir manna sjeu mjög skiftar um þingsályktunartillögu hans, og það hefur altaf verið svo, síðan farið var fyrst að ræða bannlög af alvöru, að þá hafa skoðanirnar snúizt mjög öndvert til tveggja hliða. Aðrir hafa viljað útiloka alt áfengi frá þjóðinni, vegna þess að slíkt væri henni til hinna mestu heilla, en aðrir hafa haldið því fram, að það, að lögbanna flutning á áfengi til landsins, væri þjóðinni til ógæfu. Jeg tel víst, að báðir hafi haldið fram skoðunum þessum af fullri sannfæring, og að þær eigi því báðar rjett á sjer.

Jeg sný mjer því að ýmsum atriðum, er háttv, flm. talaði um.

Háttv. flm. talaði fyrst um, að tillaga þessi væri fram komin vegna áskorunar kjósanda hans í Strandasýslu, en lýsti því þó síðar yfir í ræðu sinni, að þeir hefðu talið bezt og heppilegast, að nema bannlögin strax úr gildi, en ekki hafa þessa leið, er hinn háttv. þm. leggur til. Mjer kom ekki óvart, þó þessi rödd kæmi einmitt frá þessu hjeraði, því er aðflutningsbannslögin voru hjer fyrir þinginu 1909 var það einmitt Strandasýsla, er stóð einna örðugust fyrir málinu, og kjósendur þar lögðu fyrir fulltrúa sinn þá leiðina, sölufrestinn til 1. janúar 1915, er háttv. flm. lastaði mest, og er jeg sammála háttv. flm. um það, að sölufrestur þessi sje mjög óheppilegur, en í sambandi við það vil jeg vekja athygli á, að aðflutningsbann og sölubann er ekki hið sama, og aðflutningsbannsreynsla fæst eigi með sölubanni. Jeg undrast því ekki, þó Strandamenn segi, að bannlögin hafi illar og skaðlegar afleiðingar, og þó þeir treysti því, eins og háttv. flm. gerði, að alþingiskjósendur með nýrri atkvæðagreiðslu vilji afnema bannlögin.

Þótt Strandamenn og háttv. flm. hafi þessa skoðun, þá lít jeg öðru vísi á þetta. Jeg hef þá trú, að atkvæðagreiðsla nú færi á sama veg og 1908. Það, sem til þess kemur og jeg legg mikla áherzlu á, er, að jeg tel ekki fengna þá reynslu, er flm. talaði um að fengin væri. Jeg tel reynsluna svo litla, að mjög hæpið sje að byggja á því, að mönnum hafi snúizt hugur í máli þessu, og fullkomin reynsla fæst ekki fyr en eftir 1. janúar 1915. Vel má það vera, að einum eða öðrum, er var með lögunum, hafi snúizt hugur, en sumir, er voru þeim andvígir, eru það ekki lengur; mun það því jeta sig upp á báðar hliðar.

Þá sagði háttv. flm., að sjer þætti undarlegt, að bannvinir væru mótfallnir nýrri atkvæðagreiðslu meðal alþingiskjósenda um bannlögin, og taldi það skýra gjaldþrotayfirlýsing, yfirlýsing um að þeir teldu, að atkvæðagreiðsla færi nú á annan veg, en 1908, en jeg mótmæli því, að nokkur slík gjaldþrotayfirlýsing felist í þessu, heldur byggist það eingöngu á því, að við höldum því fram, og það með fullum rjetti, að engin reynsla sje fengin fyrir lögunum, og því ekki hægt með nokkurri skynsemd, — að jeg ekki segi, að það sje móðgun við kjósendur — að skjóta lögunum til nýrrar atkvæðagreiðslu.

Það væri eins og við háttv. flm. hefðum komið okkur saman um, að reyna eitthvað, er við vissum ekki hvernig væri eða mundi reynast, en á næsta augnabliki segðurn við: „Nei, það viljum við ekki.“ Það væri helber hringlandaháttur, gersamlega ástæðulaus. Lögin eru orðin til með þjóðaratkvœðagreiðslu, og því er sjálfsögð ný þjóðaratkvœðagreiðsla, eigi að nema þau úr gildi. Um það geta allir verið sammála; þess vegna er jeg í því efni sammála háttv. flm., að aðferð hans sje rjett. En nú væri slík atkvæðagreiðsla alt of snemma fram borin, er reynsla er engin fengin.

Um ýmsa agnúa, er háttv. flm. taldi á bannlögunum í heild sinni vil jeg ekki fara mörgum orðum. Þó vil jeg drepa á sum atriði, er hann gat um.

Jeg er sammála háttv. flm. um tekjutap landssjóðs á bannlögunum, enda duldist það engum strax í öndverðu, að landssjóður misti miklar tekjur, þar sem áfengistollurinn var, og það er satt, er háttv. flm. sagði, að það hefði gengið illa að fá fje í skarðið. Af hverju það hefur stafað, skal jeg ekkert segja. Það er auðvitað altaf vandi að leggja á gjöld, og þeim mun erfiðara, sem gjöldin eru hærri, en auk þess getur líka ýmislegt verið meðverkandi að því, að ekki hefur orðið auðið að fylla þetta skarð. Það getur t. d. verið meðverkandi orsök þess, hversu illa hefur gengið að fylla skarðið, að andbanningar hafa haldið því fram, að bannvinir einir ættu að annast það, en jeg lít svo á, sem það sje algerlega rangt. Meiri hluti þjóðarinnar hefur óskað laganna, og þess vegna ber þjóðarheildinni að gera það. Hver áhrif þessi ummæli andbanninga hafa haft, samhliða því, að þeir í blöðum sínum hafa rifið niður allar nýjar leiðir í skattalöggjöf vorri, skal jeg ósagt láta, en sennilegt er, að þau hafi ekki verið áhrifalaus með öllu.

Um stóra axarskaftið, er háttv. flutnm. nefndi svo, sölufrestinn til 1. janúar 1915, er það að segja, að jeg er honum fullkomlega sammála um, að aðflutningsbann og sölubann átti að fara saman, og var í alla staði heppilegast og hagfeldast, að svo hefði verið. En eins og jeg sagði áðan, þá áttu Strandamenn mestan og beztan þáttinn í því óheilla atkvæði.

Háttv. flm. talaði um, að lögin væru brotin, og má vera, að það sje rjett, þó jeg viti ekki til þess og telji óvíst, að svo sje. Og á meðan jeg ekki veit til þess, geri jeg lítið úr staðhæfingum flm. um þetta. Jeg þarf að hafa einhverjar sannanir, eitthvað til þess að þreyfa á. En auk þess segir það ekkert um það, hvernig aðflutningsbannslögin muni reynast, þegar hvorttveggja er gengið í gildi, aðflutningsbann og sölubann, hvort núverandi aðflutningsbannslög eru nú brotin eður eigi. Þegar sölubann er komið á jafnframt því, sem ekki má flytja inn áfengi, þá verður örðugra að brjóta aðflutningsbannið, en á meðan þetta fer ekki saman, enda viðurkendi háttv. flm. það, er hann lastaði sölufrestinn.

Sú reynsla, er nú gæti verið um að ræða, er því harla ljettvæg, og hún er þýðingarlítil mjög, til þess að byggja nokkuð á henni um reynslu þá, er fást muni síðar meir.

Jeg skal ekki deila við hinn háttv. flm. um það, að mikið fje sje sett fast í landinu vegna bannlaganna. Það er vitanlegt, að mikið vín hefur verið flutt inn í landið síðasta ár, og landssjóður hefur haft miklar tekjur af víntolli. Og þótt mikið vín liggi fyrir í tollgeymslu, og það sýni, að mikið fje sje sett fast í vínföngum, þá undrar það mig als ekki. Jeg skal geta þess, að jeg hjelt því fram á síðasta þingi, að það mundi koma mikið fje í landssjóð, eins og raun hefur á orðið, einmitt með því, að fresta ekki framkvæmd bannlaganna. Mjer kemur því ekki á óvart, þótt mikið fje sje nú sett fast í víni. En þótt svo sje nú ástatt, að mikið fje sje sett fast, bæði hjá verzlunum og einstökum mönnum, þá held jeg, að hinn háttv. þm. Strand. hafi gert of mikið úr þeirri hættu, er einstökum mönnum gæti stafað af því, að þeir geyma svo miklar vínbirgðir í fórum sínum, með því að þeir mundu vegna þess drekka meira en ella. Það getur verið, að þetta sje satt um suma einstaklinga, — gamla drykkjumenn — er hafa lítið taumhald á fýsnum sínum, að þeir drekki meira, er þeir eiga nóg vín inni í skápum sínum. En jeg held samt, að slíkt sje ekki alment, og geti því ekki talizt þýðingarmikið.

Margir, bæði háttv. flutnm. og aðrir, hafa kallað bannlögin óeðlilegt haft á frelsi manna, kallað þau þvingunarlög og þesskonar og haldið því fram, að með þeim væri beitt þvingun við menn í mat og drykk. En þá er menn tala um þvingun í þessu sambandi, má minna á það, að öll lög eru að meira eða minna leyti höft á sjálfræði einstaklingsins. Og þegar menn halda því fram, að bannlögin sjeu þvingunarlög, þá líta þeir ekki á það eða gleyma því, að það er þjóðin sjálf, er hefur kveðið já við þeim, hefur samþykt að heimta þau, þegar hún var spurð um, hvort hún óskaði þeirra, — spurð að því samkvæmt frumkvæði alþingis, hvort að atkvæðagreiðsla skyldi fram fara um málið. Og þegar þjóðin hefur kveðið já við einhverju, er þá hægt að segja, að hún sje þvinguð til þess? Jeg neita því. Hún hefur fengið þau lög, er hún hefur heimtað. Það er því með öllu rangt, að segja, að bannlögunum hafi verið smelt á hana, þar sem hún hefur sagt: „jeg vil fá þau“.

En hitt er aftur víst, sem hinn háttv. þm. tók fram, að það er mikill skoðanamunur á þessu efni, og það eru til margir kjósendur í landinu, þótt þeir væru og sjeu að minni hyggju ennþá mikill minnihluti, sem segja „jeg vil ekki bannlögin“. En það getur ekki komið til greina, að meiri hlutinn beygi sig fyrir minni hlutanum, því að meiri hlutinn hlýtur ætíð að ráða.

Þá er annað atriði, er jeg vildi minnast á. Hinn háttv. flutnm. kvað sjer þykja það illa farið, að engin bindindisstarfsemi gæti átt sjer stað eftir það að bannlögin kæmust á, og hann kvaðst ekki sjá — ef jeg hef skilið hann rjett, — að bindindismenn hefðu neitt að gera, nema vera njósnarar, sem snuðruðu ofan í hvern kopp og þefuðu framan úr hverjum manni. Jeg get ekki verið háttv. þm. samdóma um þetta. Þetta mundi á engan hátt verða hlutverk bindindismanna, þótt þeir auðvitað vilji, að laganna sje gætt og þeim hlýtt. Það er skoðun mín, að bindindisstarfsemi geti átt sjer stað, þótt bannlögin komist á. Hún verður aðeins í breyttu formi. Jeg lít svo á, að þessi starfsemi haldi áfram og miði til að fræða fólkið um áhrif áfengis, til þess að tryggja það, að það freistist ekki til að skemma sig á áfengisnautn utan lands nje innan. Jeg held því, að bindindismenn hafi miklu meira að gera, en vera njósnarar og snuðrarar.

Þá mintist háttv. flutnm. á, að bannlögin mundu draga inn í landið ýmsa óhófs- og óhollustudrykki, og þetta yrði til þess, að menn færu að búa til ýmislegt einkennilegt samsull, eins og hann sagði sögu um, að hann þekti, að menn hefðu gert með því að blanda saman hárvatni og sætri saft. Jeg er ekki hræddur við, að mikið kveði að þessu, og jeg held, að það auki ekki nautn áfengra drykkja, þó að áfengis sje ekki neytt í landinu, en um slíkt er ekki unt að segja með vissu. Jeg þekki að minsta kosti menn, sem eru bindindismenn og drekka sáralítið af óáfengum drykkjum. Og þó að einstakir menn, til þess að halda við fornri venju frá drykkjutíð sinni, drykkju efalaust eitthvað fyrst í bindindistíð sinni, held jeg, að smádragi úr slíku. Jeg held þess vegna fram því, þvert á móti því, sem háttv. flm. hjelt fram, að það muni verða drukkið minna af sulli ýmiskonar, þegar frá líður og bannlögin hafa verið í gildi nokkur ár.

Aftur er jeg samdóma háttv. flutmn. um það, að aðferð sú, sem hjer er farið fram á, að skjóta málinu aftur til kjósenda, sje rjett og eðlileg, því að jeg álít með öllu rangt, að nema bannlögin úr gildi, án þess, að spyrja þjóðina aftur um málið, úr því að hún hefur einusinni verið um það spurð. Nýtt þjóðaratkvæði er að minni hyggju sjálfsagt, ef nema á bannlögin úr gildi. En jeg lít svo á, að það hefði verið eðlilegra, að fleiri raddir hefðu komið fram um slíkt, áður en tillaga, eins og sú, sem hjer liggur fyrir, hefði komið fram, því að þótt jafnvel allir Strandamenn hefðu óskað slíks, tel jeg það að litlu. Þeir eru ekki nema 1/45 hluti þjóðarinnar. En mjer virðist rjett og eðlilegt, að máli þessu sje ekki skotið til nýrrar atkvæðagreiðslu, fyr en óskir hafa komið um slíkt frá stærri hluta þjóðarinnar, en enn er raun á.

En hvað sem þessu líður, þá mælir það mest á móti þessari tillögu, að engin reynsla, svo teljandi sje, er fengin um bannlögin. Þótt reynslan á bannlögunum kunni að verða dýrkeypt, eins og hún er á ýmsum sviðum, þá tel jeg sjálfsagt, að þjóðin eigi heimting á slíkri reynslu. Hún verður ekki svo dýrkeypt, að hún borgi sig ekki. Ef stofnað verður nú í haust til nýrrar atkvæðagreiðslu, þá býst jeg við, að „agitationin“ yrði ekki einhliða við þá atkvæðagreiðslu. Þetta heyrðist mjer líka vera skoðun háttv. flutnm., því hann sagði, að „agitationin“ hefði verið mjög einhliða 1908. Nú mundi hún verða tvíhliða, bæði með og móti, því að margir óska þess, að bannlögin verði afnumin. Jeg efast ekki um, að við atkvæðagreiðsluna mundu því spretta upp megnar og miklar deilur, deilur, sem jeg veit ekki hvar mundu lenda. Ef atkvæðamunur yrði nógur til þess, að nema lögin úr gildi, þá sje jeg ekki annað, en að deilum um málið mundi haldið áfram þangað til bannlögunum yrði komið aftur á, og reynsla fengin um þau. Því kveð jeg þessa tillögu of snemma fram borna og ber upp svohljóðandi dagsskrá: „Deildin telur rjett, að aðflutningsbannlögin verði eigi úr lögum numin án undangenginnar atkvæðagreiðslu þjóðarinnar. En þar sem reynsla er ekki komin á bannlögin, telur deildin tillögu þá, er fyrir liggur, of snemma borna fram og tekur því fyrir næsta mál á dagsskrá.“

Að lokum skal jeg geta þess, að jeg vona, að sú reynsla, sem fæst með því, að bannlögin haldi áfram að vera í gildi, sýni, að þau geti verið og verði þjóðinni til heilla og hamingju, í stað óhamingju, eins og sumir búast við. En hvernig sem menn líta á þetta, vona jeg, að háttv. deild verði mjer sammála um það, að málið sje of snemma upp borið, og enn sje of snemt, að ný atkvæðagreiðsla fari fram.