19.08.1912
Efri deild: 28. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

89. mál, styrkur til búnaðarfélaga

Sigurður Stefánsson, (flutn.m.):

Jeg hef búizt við því, að mótmæli og athugasemdir kæmu fram við þingsályktunartillöguna frá þeim mönnum, er búa í þeim sveitum, sem líkar eru að staðháttum og Vestfirðir, t. d. Austfjörðum, en þegar háttv. 2. þm. Árn. mótmælir því, þar sem allra minstum erfiðleikum er bundið, að rækta jörðina, og þar sem jörðinni er svo háttað, að hún nærri því biður bóndann að bæta sig, þá er það óskiljanlegt og næsta kátlegt. Þótt þessi háttv. þm. tilnefndi 2 hreppa á Vestfjörðum, þar sem vel má vinna að jarðabótum, Reykhóla, og Geiradalshreppa, þá sýnir það ekki, að það sje rjettmætt, að taka ekki þessa tillögu til greina.

Það er öldungis rjett, sem háttv. 1. þm. Húnv. tók fram, að það er mjög mikill munur á því, hvenær hægt er að vinna að jarðabótum, og að þær eru ódýrari þar sem hægt er að vinna að þeim vor og haust, en á Vestfjörðum verður oftast að vinna að þeim á sumrum, og á vorin er ómögulegt að fá menn þar til jarðabótavinnu. En þegar unnið er að þeim að sumrinu, þá eru jarðabæturnar hvað dýrari strax, en sumarvinnan er meiri á Vestfjörðum vegna þess, að bændur stunda þá líka mikið sjó og hafa þannig bæði sjávarútveg og landbúnað.

Jeg þakka háttv. 2. þm. Skgf. fyrir hinar viturlegu undirtektir hans undir tillöguna, og jeg er sannfærður um það, að þeim mun kunnugri sem menn eru á Vestfjörðum, þeim mun meiri sanngirni telja menn hjer um að ræða, og þótt þær jarðir kunni að finnast í Árnessýslu, sem vafasamt er, sem grýttar eru og erfiðar til jarðabóta, þá er það undantekning þar, en reglan á Vestfjörðum.

Þegar gætt er að því, hvað mikið er framleitt á Vestfjörðum, og hvað mikið er goldið þaðan til landssjóðs, þá sjá menn, að Vestfirðir standa fremstir allra hjeraða landsins. Þess vegna er það ekki nema rjett, þótt nokkuð meira gengi frá landssjóði til Vestfjarða en nú er; hjer er ekki um ágengni að ræða, heldur um sanngirni, og jeg veit, að þeir háttv. þm., sem eru á móti þessu, eru það af ókunnugleik einum, enda tel jeg það ekki nema eðlilegt, þar sem sumir þeirra eru frá hjeruðum, þar sem ekki þarf annað en að reka fót í þúfu, til þess að þar hrynji í sundur fín gróðrarmold, og þess vegna geta ekki skilið það, hve jörðin er erfið viðfangs á Vestfjörðum, grjót við grjót.

Auk þess eru Vestfirðir sjerstaklega settir að því, að eina ræktunin, sem komið getur til orða, er túnarækt.

Jeg er samþykkur ummælum þeirra háttv. 1. þm. Húnv. og háttv. 2. þm. Skgf., hvað varnarskurði snertir, og jeg tel ekki rjett að nota þá þar vestra, enda býst jeg við, að þeir verði mjög lítið gerðir hjer eftir, heldur notaður gaddavír, sem er heppilegur, og þess vegna tel jeg líklegt, að landssjóður hafi ekki mikil útgjöld af varnarskurðum á Vestfjörðum.

Háttv. 6. kgk. þm. vildi láta rannsaka þetta efni, en það er alerfitt og kostnaðarsamt, því að ef gera ætti það eftir tillögum hans, þá þyrfti að rannsaka hverja jörð á landinu, og þessi rökstudda dagsskrá hlýtur að vera sprottin af misskilningi, því að deildin getur ekki vísað því til Búnaðarfjelags Íslands heldur til stjórnarráðsins, og get jeg ekki fallizt á hana.