20.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

4. mál, breyting á alþingistíma

Sigurður Sigurðsson:

Það má ekki minna vera en að maður taki þessu frv. stjórnarinnar á þann veg, að fara um það nokkrum viðeigandi orðum. Það vakti undrun mína, er eg frétti að frv. þetta væri á leiðinni. Eins og menn mun reka minni til, þá lá svipað frumvarp fyrir síðasta þingi og féll þá við lítinn orðstír. Og ekki virðast mér ástæður, þær er stjórnin ber fram í þetta skifti, vera svo margar, margbrotnar eða veigamiklar að frekar sé ástæða til að samþykkja þetta frv. nú.

Fyrsta ástæðan, er stjórnin ber fyrir sig, er sú, að vetrartíminn sé ekki hentugur þingtími. Mér verður á að spyrja: hversvegna? Mér vitanlega hafa engar umkvartanir þess efnis komið fram frá alþýðu manna, sízt utan af landi. Má vera að höfðingjalýð landsins, og þá einkum þeim er í Reykjavík búa, sé þessi tími óhentugur, enda mun frumv. þetta fram komið fyrir þeirra tilhlutun.

Þá var borin fram sú ástæða, að ekki geti þingið og háskólinn komist fyrir hér í þinghúsinu samtímis. Eg verð að mótmæla þessu. Ef rétt er áhaldið þarf, háskólinn ekki að neinu leyti að fara í bága við þinghaldið. Um mjög margra ára skeið voru herbergi, þau er háskólinn nú notar, upptekin af landsbókasafninu, án þess nokkur kvartaði yfir því að ekki mætti halda þingið hér alt fyrir það. Sömuleiðis var forngripasafnið geymt á hæsta lofti. Benda má einnig á það, að tvö undanfarin þing hefir neðri bygð hússins verið mjög lítið notuð í þarfir þingsins. Fjárlaganefnd Nd. hafði eitt herbergi þar til fundarhalda og þar með búið. Raunar voru flokksfundir haldnir niðri, en það má deila um það, hvort þeir séu svo mjög hollir þingstörfunum. Þeir er venjulega ekkert annað en samsærisfundir til ráða gegn ímynduðum vélráðum mótflokksins eða til að fá flokkinn til að samþykkja einhvern bita eða aðra hagsmuni fyrir gæðinga flokkins. (Forseti: Þetta eru ekki þingleg orð). Eg þykist nú hafa sýnt, að sú ástæða, að ekki sé nægilegt húsrúm í þinghúsinu, sé á engum rökum bygð.

Þá hefi eg heyrt kvartað yfir því, að það mundi valda ruglingi, töf í kenslunni, ef þing er á sama tíma og háskólakenslan fer fram, að nemendur muni sækja ver tíma o. s. frv. En þessari viðbáru svara eg á þann veg, að þá er annað tveggja stjórnin á nemendunum léleg, eða nemendur þann veg gerðir, að ekki er hægt að stjórna þeim. — Aðalástæða mín til að vera mótfallinn færslu þingtímans er sú, að það mundi gera framleiðendum, landsins, bændum og sjómönnum erfiðara en ella að sitja á þingi. Eg segi ekki, að seinni hluti vetrar sé sá heppilegasti þingtími; má vera að fyrri hluti vetrar sé allra hentugasti tíminn. En það dylst mér eigi, að ef á að flytja þingið aftur fram á sumarið, þá útilokar það að miklu leyti bændur frá að sitja á þingi. Eg hefi fyrir mér í þessu orð og ummæli ýmsra bænda, er dottið hefir í hug að bjóða sig fram til þings, og sömuleiðis þeirra er á þingi sitja nú. Hinsvegar veit eg ekki til að umkvartanir hafi komið frá alþýðu eða utan af landi yfir þeim tíma, er þingið er nú haldið á. En því hefir nú verið svo farið um þá menn, er skipað hafa æðstu sætin í stjórn þessa lands, bæði fyr og síðar, að þeir hafa tekið minna tillit til alþýðunnar en „höfðingjanna“. Óskir og umkvartanir alþýðunnar hafa tíðast verið að vettugi virtar og stungið undir stól. — Eg get skilið að kennurum landsins sé miður þægilegt að þingið sé haldið að vetrinum, en mér er spurn: á að taka meira tillit til einstakra manna en heilla stétta?

Flogið hefir fyrir, að ástæða væri til og til stæði að hækka dagpeninga þingmanna ef þingtímanum yrði breytt á þennan hátt. Það má vera að það hafi vakað fyrir sumum, en þá ástæðu get eg ekki fallist á.

Hæstv. ráðherra gat þess, að ver væri unnið á vetrarþingum. Eg efast um að þetta sé á rökum bygt. (Guðlaugur Guðmundsson: Reynslan er sannleikur). Hv. þm. Ak. (G. G.) getur ekkert um þetta dæmt; hann var á hvorugu þinginu. Það sannar lítið þótt árangurinn hafi ekki verið tiltölulega mikill af þessum tveim vetrarþingum; það hafði við önnur rök að styðjast.

Eg skal svo ekki þreyta hina háttv. deild lengur, en vona að frumv. þetta verði felt bæði frá 2. umr. og nefnd.