19.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

4. mál, breyting á alþingistíma

Einar Jónsson:

Þó að bændur séu ekki nefndir sérstaklega í þessu þgskj., þá skilst mér svo eftir umræðunum, sem aðallega sé höfð hliðsjón af þeim, og að það sé sterk ástæða með eða móti þessu frumv., hvernig bændum fellur það, og þykir mér nú rétt að þeir láti líka eitthvað til sín heyra um það. Það er enginn efi á því, að bændum er heyskapartíminn lang-dýrasti tíminn, og að undir þeirra eigin stjórn mun vinnan hepnast bezt. Þessvegna er það, að þótt landið kynni að spara fé á sumarþingum, þá verður það með skaða þessara einstöku manna. Eg skal ekkert fullyrða um það, hvort það er rétt, sem eg sá í einhverju blaði efttir hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.), að sparnaðurinn mundi nema 15 þús. kr. Það væri auðvitað lagleg fjárhæð að spara, og gott, ef það mætti verða, án þess að skaða aðra, en það er nú einmitt tilfellið. Og að því er kemur til aðalástæðunnar fyrir þessu frumv., sem sé þeirrar, að háskólinn geti eigi haft heima í þinghúsinu á sama tíma og þing er háð, þá er hún einkis virði. Það sér hver maður, að herbergin hér niðri í húsinu eru engu teptari nú en áður, meðan þar voru dauðir munir — söfnin —, enda kom það fram í fyrra, þegar háskólinn var stofnaður, að ekki mundi til þess koma, að háskólahaldið og þinghaldið rækist á. Þetta man eg að þeir sögðu þá, sem voru háskólanum meðmæltir, og hvernig stendur þá á því, að þetta skuli nú alt í einu ekki geta samrýmst? Eg skal svo ekki tala frekar um þetta nú, en helzt vildi eg óska, að þetta frumv. lifði ekki lengur en þennan yfistandandi klukkutíma.