22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

4. mál, breyting á alþingistíma

Valtýr Guðmundsson:

Eg hefi komið með br.till. á þgskj. 31 þess efnis, að þing komi saman 17. júní eða fyrsta virkan dag eftir þann dag. Eg var búinn að semja þessa tillögu áður en eg vissi af till. á þgskj. 32. Það vakti fyrir mér, að þó mánuðirnir nóv.—des. kynnu að vera bændum hentugri þingtími, þá kæmi hann í bága við notkun þinghússins sem háskólahúss. Háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) sagði, að það hlyti að vera eins auðvelt að halda þing nú, þó háskólinn væri hafður niðri, einsog áður, þegar bókasafnið var geymt í þeim herbergjum, sem háskólinn hefir nú. En það ástand var óhæfilegt; húsrúmið var altof lítið. Það var nálega ómögulegt, að fá herbergi fyrir nefndarfundi; oft varð að reka skrifarana út úr herbergjum þingsins og oft urðu menn að halda nefndarfundi út í bæ. Þessvegna álit eg heppilegast, að þingið sé haldið á sumrin. Þegar mál þetta var rætt á síðasta þingi, þá létu margir bændur það í ljósi, að þeim væri sumrið hentugri þingtími en veturinn. Þetta er líka mjög skiljanlegt. Þeim er hægra að fá menn fyrir sig til að sjá um heyvinnuna á sumrin en til að stjórna búinu á haustin og vorin. Br.till. mín er miðuð við það, að eg lít svo á, að það muni vart koma fyrir, að 2 mánuðirnir júlí og ágúst nægi til að ljúka þingstörfum, meðan þing er haldið að eins annaðhvert ár. En eg hygg, að bændur muni eiga erfitt með, að sitja á þingi fram í septembermánuð, því að þá fara haustverkin að byrja, fjallskil og þessleiðis. En hinsvegar hygg eg, að vorverkum bænda muni að mestu vera lokið kringum 17. júní, og því hefi eg valið þann tíma. Forfeður okkar á söguöldinni hafa sýnilega verið þessarar skoðunar, að þetta væri heppilegasti tíminn. Frá því alþing var stofnað 930 og þangað til 999 kom þing saman um þetta leyti; en þá var samkomudagurinn færður fram um viku, til Jónsmessu. Því ætli þeir hafi valið þenna tíma? Þeir voru engu lakari búskaparmenn en Íslendingar eru nú. Þeim hefir fundist þeir geta verið að heiman um þetta leyti. Að vísu er háskólastörfunum eigi algerlega lokið þann 17. júní nú, en því mætti breyta. Háskólinn gæti tekið fyr til starfa á haustin og hætt fyr á vorin eins og í Kaupmannahöfn. Þar tekur hann til starfa fyrst í september og hættir störfum um 9. júni. Enda væri þetta líka hentugra fyrir nemendur skólans. Mér virðist því 17. júní í alla staði hentugri samkomudagur þingsins. Og eitt atriði vil eg benda á enn, að það er mjög skemtilegt, að þingið komi saman á fæðingardag Jóns Sigurðssonar. Þessi dagur hefir því tvent sér til ágætis frá sögulegu sjónarmiði.

Að endingu skal eg geta þess, að þó mér fyndist skemtilegast, að tillaga þessi yrði samþykt, þá er hún mér ekkert kappsmál, og fái hún lítinn byr, þá mun eg greiða atkv. með frv. stjórnarinnar.