09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Þorleifur Jónsson:

Eg á ekki neina br.till. við frv., en vil þó lýsa skoðun minni á málinu. Álít eg mestu nauðsyn að frv., geti orðið að lögum. Eins og við vitum er mikill hluti af strandlengju landsins símalaus og verða símalausu kjálkarnir meir og meir útundan eftir því sem tímar líða. Væri nauðsynlegt að síminn næði til sem flestra verzlunarstaða, að öðrum kosti er hætt við að viðskiftalífið á þeim stöðum, sem síma vantar, verði dauft og erfitt. Tel eg að frv. fari í rétta átt, því að sjálfsagt er og réttlátt að landsmenn hafi sem jöfnust not af símanum og þeim gæðum, er hann hefir í för með sér. í frv. er ekki gert ráð fyrir, hvenær símalagningu 1. og 2. flokks eigi að vera lokið, og stóð eg aðallega upp til þess, að skjóta því til nefndarinnar að koma fram með br.till til 3. umr. í þá átt, að símalagningunni skuli lokið fyrir árslok 1915. Finst mér ólíklegt, ef taka á lán á annað borð, að lengra þurfi að líða en 3 ár frá því byrjað er á símalagningunni og þangað til henni er að fullu lokið. Sérstaklega vildi eg heyra álit hv. framsm. (J. M.) um þetta atriði. Þá vildi eg spyrja nefndina, hver meiningin sé með 9. gr. frv, að hve miklu leyti ætlast er til að hreppsfélögin greiði reksturskostnaðinn. Finst mér óréttlátt ef þau eiga að kosta reksturinn að mestu leyti, þar sem kaupstaðirnir munu engu kosta til. Um br.till. skal eg ekki fara mörgum um orðum. Eg hallast yfirleitt að skoðun nefndarinnar, en heppilegast fyndist mér að landsjóður kostaði aukalínurnar eins og aðallínurnar. En eg býst ekki við að af því verði og þá verður maður að sætta sig við það. (Bjami Jónsson: Það er hægt að mótmæla). Já það er hægt, en mun vera þýðingarlítið. Þetta var aðallega það sem eg vildi athuga, en einkanlega vildi eg heyra álit nefndarinnar um það, hvort hún myndi eigi fús að ákveða að símalagningum þeim er lán er tekið til verði lokið í lengsta lagi á 3 árum.