18.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

14. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Valtýr Guðmundsson:

Eg vil styðja till. hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) um að nefnd verði skipuð í þetta mál. Bæði er það vegna þess, sem hann tók og fram, að þingið getur enga hugmynd haft um það, hve mikill tekjuauki yrði að lögum þessum, en aðallega vegna þess, að frv. er að mínu áliti mjög áhugavert og miðar algerlega í öfuga átt við þá stefnu, er algengust er í tolllöggjöf allra annara landa. Hér er farið fram á að leggja útflutninggjald á afurðir sem framleiddar eru í landinu sjálfu. Slíkt þekkist ekki í öðrum löndum, nema þá sem neyðarúrræði, eins og t. d. á Bretlandi meðan Búastríðið stóð yfir! Þá urðu Bretar að leggja á kolatoll, en hann stóð ekki nema stutta stund. Líka ber þess að gæta, að hér er um nýjan og óþektan iðnað hér á landi að ræða þar sem verið er að reyna að gera arðberandi meðal annars fiskiúrgang, sem hingað til hefir verið fleygt og einskis virði; og nú á strax að reyna að drepa hann í fæðingunni — eða að minsta kosti — þótt það tækist ekki — þá er hætt við, að þessi aðferð fæli marga framtakssama menn frá því að feta í hinna fótspor. Það er okkur til stórs gróða, að slíkur iðnaður komi upp, því að jafnvel þótt mestur arðurinn gangi ef til vill til útlendinga, þá höfum við og mikinn hag af honum — bæði veitir það mörgum manni atvinnu og einnig koma þessar verksmiðjur til að borga landinu háan skatt og landsmenn græða á að selja þeim afurðir sínar. Eg verð því að álíta það mjög varhugavert, að þjóta undir eins til að leggja toll á þennan iðnað, þegar hann er að fæðast. — Og að samþykkja þetta frv. algerlega óathugað, virðist mér alveg fráleitt. Það er þá ekki hundrað í hættunni, þótt einhver dráttur, sem aldrei yrði mikill, yrði af því, að málið væri sett í nefnd, og þeir, sem byrjað hafa á verkinu, slyppu fyrstu vikurnar. Eg vil því ákveðið ráða hv. deild til þess að skipa nefnd í málið.