20.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Flutningsm. (Lárus H. Bjarnason):

Þetta frv., sem eg og háttv. meðflutnm. mínir berum hér fram, er enginn nýr gestur hér í þinginu. Þegar árið 1902, er drög voru lögð til laga þeirra, er nú gilda um landsstjórn hér á landi, orðaði framsm. þeirra laga það, að ráðherra skyldi engin eftirlaun hafa, en Albertí vildi ekki svo vera láta. Þá voru tveir kostir, annaðhvort að taka við lögunum eins og þau voru, eða ekki og var þá ekki hætt á það að breyta frv., hvorki í þessu né öðru. Eftir þeirri stjórnarskrá, sem vér eigum nú við að búa, á því ráðh. rétt til eftirlauna og verður hann ekki af honum tekinn, en hinu ræður löggjafarvaldið, hve há eða lág þau laun eru. Það getur fært þau upp eða niður eftir vild, þó þannig, að ekki sé skertur réttur þeirra sem öðlast kunna að hafa tiltekinn rétt til eftirlauna. Nú þykir mér og fleirum tími til þess kominn, að leggja enn á ný út í viðleitni til þess, að fá þessu breytt. Bæði er það, að eftir allstuttan tíma — ekki nema 7 ár — verðum við nú að borga 8 þús. kr. á ári til tveggja ráðherra í eftirlaun. Menn hefðu að vísu getað búist við því, að sú upphæð hefði hvergi nærri orðið svo há, en það er nú einu sinni svona — og svo virðist vera því meiri ástæða til þess, að lækka ráðh.eftirlaunin, þar sem það liggur í loftinu hjá mörgum, að fjölga ráðherrunum. Á þingunum 1909 og 1911 voru líka borin fram frv. líks efnis og þetta af þáverandi meirihluta, en þau náðu í hvorugt skiftið fram að ganga. 1911 féll frv. eingöngu vegna ósamþykkis um fullkomið aukaatriði.

Því er nú svo farið, að maður, sem verður ráðherra — kemst upp í þann sess annaðhvort úr embætti eða embættisleysu, eða þá í þriðja lagi af eftirlaunum. Við, flutnm. þessa frv., viljum nú hafa ráðh.eftirlaunin 1.000 kr., enda mundi sú fjárhæð yfirleitt verða nóg þeim sem sæktust ekki eftir ráðherradómi vegna eigin hagsmuna, og undir slíka menn væri ekki þörf að hlaða. Komi nú maður í ráðherrasess úr öðru eftirlaunaembætti, þá á hann, eftir þessu frv., að halda eftirlaunum eftir hið fyrra embætti sitt, og komi hann af eftirlaunum, þá á hann og að halda þeina — yfirleitt. Þessu héldum við fram í Ed. í fyrra, og á því strandaði málið þá, því að meiri hlutinn vildi taka af slíkum manni eftirlaunin frá fyrra embættinu, en það gæti löggjafinn ekki, þó að hann vildi, dómstólarnir mundu áreiðanlega dæma honum þau.

Eg hygg að nefndar ætti ekki að vera þörf, þar sem málið var rætt við ekki minna en 8 umr. í fyrra og oft 1909. Hins vegar er eg ekki beint mótfallinn nefnd, ef mönnum sýnist svo, og mundu þá þrír menn nægja. Vil eg svo enda með því, að mælast til þess að þingið taki þessu frv. eins vel og gert var í fyrra.