02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Jón Magnússon:

Það er rétt, sem háttv. framsm. (L. H. B.) sagði, að eg vildi ekki vera með að samþykkja þetta frv., og eins hitt, að eg er ekki mótfallinn því að fella burt úr lögum ákvæðið um að ráðherra hafi ákveðin eftirlaun. Eg vil hafa það á þingsins valdi í hverju einstöku tilfelli, hvort ráðherra fái eftirlaun og hve há. En ef lág eftirlaun væru ákveðin í lögum býst eg við að erfiðara yrði að fá viðbót af þinginu.

En svo er það annað, sem mér gengur til að eg get ekki felt mig við þetta frv. Ef embættislaus maður verður ráðherra, getur hann aldrei fengið hærri eftirlaun en 1.000 kr., en ef embættismaður verður ráðherra, geta eftirlaun hans aldrei orðið minni 2.000 kr.

Það er af þessum ástæðum, sem eg get ekki felt mig við frv. og álít ekki rétt að samþykkja það eins og það liggur fyrir. Annars geri eg þetta ekki að neinu kappsmáli, en vildi aðeins lýsa því hvers vegna eg eg er ekki frumv. fylgjandi. Eg álít nóg að breyta þessu þegar stjórnarskránni verður breytt og ráðherrar verða þrír.