14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

19. mál, verðtollur

Matthías Ólafsson:

Að eins örfá orð til að leiðrétta það sem hv. frsm. minni hl. (B. Kr.) sagði. Hann sagði að póstsendingum fylgdi ekki uppgjöf um hið nákvæma verð vörunnar, heldur væri gefið upp það verð sem póststjórnin á að borga ef sendingin tapast. Það er rétt, en það verð sem gefið er upp, mun í flestum tilfellum vera hærra en verðmæti vörunnar, svo að ekki er það verra. Það er ekki rétt að lítið sé sent gegn eftirkröfu í pósti; mér er kunnugt að það er mjög mikið.

Hv. þm. hélt að fragt stæði ekki á factúru nema yfir vörusendingar til smástaða eins og Dýrafjarðar. Eg ímynda mér að fraktin standi á öllum factúrum frá Danmörku. Hitt er aftur rétt að fraktreikningur fyrir vörur frá Leith kemur oft ekki fyr en eftir á. Þá verða menn að eiga það undir ráðvendni manna að þeir segi rétt til. Annars má oft reikna út hversu mikil fraktin muni vera t. d. af svo og svo mikilli sendingu af járni, en auðvitað er réttara að bíða eftir reikningnum. Það verður að mínu áliti handhægra í flestum tilfellum að reikna tollinn af brúttóverðinu, því að oftast mun, eins og eg sagði, frakt og kostnaður standa á factúrum og þá þarf bara að líta á eina aðalupphæð; hitt tekur altaf dálítinn tíma að draga umboðslaun og allan kostnað frá, til að fá út innkaupsverðið.

Eg get vel hugsað mér að verðgjaldið verði ekki svo mjög óvinsælt, og að það geti staðið lengur en til 1915. Þetta frv. yrði ekki verra í framkvæmdinni en núgildandi tollög. Og látum vera að eitthvað hafi hingað til tapast fyrir tollsvik, þá er hitt þó víst, að landssjóður hefir með tollum fengið afarmikið fé með lítilli fyrirhöfn og litlum tilkostnaði.