21.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

23. mál, stjórnarskrármálið

Bjarni Jónsson:

Mér þykir ástæð­ur meiri hl. gegn því að afgreiða fyrir stjórnarskrárbreytinguna undarlegar. Einkum er eg hissa á þeim ummælum hv. l. þm. Rvk. (L. H. B.) að þessu þingi sé ekki stefnt saman til að binda enda á þetta mál, því sá er einmitt til­gangur þess. Annars væru ákvæði stjórnarskrárinnar um að altaf skuli framfara nýjar kosningar og aukaþing haldið þegar samþ. hefir verið breyting á stjórnarskránni, óskynsamleg ef það væri ekki einmitt til að ræða það frv., sem samþ. hefir verið og binda enda á það. Auðvitað geta meirihlutamenn sagt, að það að fella málið með dagskrá sé að binda enda á það, en þá hefði þeir ekki átt að draga það svona lengi fram eftir þinginu. Menn hefðu getað betur fest hugann við .önnur mál, ef þetta aðalmál hefði fyr verið útrætt. Þeir segjast ekki vilja samþ. stjórnarskrár­breytingu meðan von sé um að sam­komulag náist við Dani, bygt á grund­velli frumvarpsins frá 1908. Eg á bágt með að skilja þetta. Það er öllum ljóst að mörg ár hljóta að líða áður en slíkir samningar eru komnir í kring, bæði þingin verða að ræða þá og gera senni­legar breytingar hvort á annars frumv. áður en endanlegt samkomulag næst, og hlýtur því að verða talsverður drátt­ur á málinu.

Eins og allir voru sammála um á síð­asta þingi, er sjálfsagt að gera þær bráðabirgða umbætur á stjórnarskránni sem nauðsynlegar þykja og ekki eru deilumál við Dani. Sá meiri hluti sem þá var fékk ámæli fyrir það, að hann ætlaði sér ekki að sinna stjórnarskrár­málinu, en reyndin var sú, að undir eins og samningarnir við Dani strönd­uðu, þá tók hann aftur upp stjórnar­skrármálið. Þá var enginn Heimastj.­maður því mótfallinn að stjórnarakrár­málið væri tekið til umræðu af þessum ástæðum. Þetta er því einkennilegur snúningur. Eg býst nú ekki við því, að Íslendingar vilji gera nokkra samn­inga við aðra þjóð, um annað en jafn­réttissamband. Hverjar tegundir jafn­réttissambands eru til, og hver þeirra er líklegust til að ná samþykki beggja þjóða? Þá er fyrst til að telja konungs­samband. Því er þannig farið að bæði ríkin eru jafn rétthá og hvort um sig hefir umráð yfir öllum sínum málum t. d. gæti annað átt í stríði þótt hitt væri ekki með. Þá er ríkjasamband. Það er nú hvergi til en var áður á Þýzka­landi. Það hygg eg að komi ekki til greina, en þó hefir það sama einkenni og hitt, að báðar þjóðirnar eru fullvalda og jafn réttháar. Þá er sambandsríki, eins og t. d. Sviss og Bandaríkin. Þar eru ríkin jafn rétthá innbyrðis, en ekk­ert þeirra fullvalda, en aftur er alt sam­bandið fullvalda út á við. Þetta fyrir­komulag gæti hugsast með Dönum og Íslendingum. Fjórði mátinn til sam­bands jafnrétthárra þjóða er málefna­samband, og heyrst hefir að það sé á stefnuskrá bræðingsmanna. Þar er grundvallarreglan, að fullveldið er hjá sambandinu, en ekki hjá hverju einstöku ríki og varðar önnur ríki ekkert um innbyrðis sambandið. Neðar en mál­efnasamband vilja Íslendingar ekki fara og þarf því ekki að telja til fleiri leið­ir. — En þá er á það að líta, hvort það er framkvæmanlegt. En það er skoðun mín að slíkt samband sé óframkvæman­legt milli svo misstórra þjóða sem Dan­ir og Íslendingar eru. Danir þyrftu um leið og þeir gengju inn í slíkt samband, að afneita fullveldi sínu og selja það í hendur sambandinu — Ísland-Danmörk eða Danmörk-Ísland, en það mundu þeir ekki vilja gera. Fyr gengju þeir að konungssambandi. Með svo misstórum þjóðum er erfitt að koma sambands­stjórninni þannig fyrir, að réttur hvor­ugrar þjóðar sé fyrir borð borinn. Ef báðar þjóðir hefðu jafna hlutdeild í sam­bandsstjórninni, þá væri réttur Dana fyrir borð borínn. En ef við ættum að hafa atkvæði um stjórn sambandsmál­anna að tiltölu við fólksfjölda, þá væri réttur vor fyrir borð borinn; við erum þrjátíu sinnum færri.

Af þessum ástæðum er samband það, sem skemst fer, málefnasambandíð, ómögulegt. Það eina sem eftir er, er sú stefna sem haldið var fyrst fram á Þingvallafundinum og eg hefi síðan fylgt, nefnilega konungssambandið. En eg hygg að ef þær konur og karlmenn sem nú eru því misrétti beittir, að hald­ið er fyrir þeim eðlilegum rétti þeirra til hlutdeildar í stjórn landsins eiga að bíða eftir réttindum sínum þangað til slíkir samningar eru garð gengnir, sem okkur nægja, þá muni margir þeirra fara að gerast langeygðir. Það er því ekki rétt að eyða sjálfsögðum umbótum á stjórnarskránni vegna staðlausra vona um samninga. Annað væri það, ef allir menn vildu taka höndum saman við mig og þá menn sem fylgja sömu stefnu og eg, um að hrinda sambandsmálinu fram og fá Dani til að fallast á kon­ungssamband. Þá mundi það sennilega takast fljótt. Danir hafa í raun og veru enga ástæðu tíl að neita okkur um það, þótt þeir þyrftu að brjóta dálítið odd af oflæti sínu, því þetta samband er full­sómasamlegt báðum þjóðum. En því er ekki að fagna, að við séum allir sam­mála, og þess verður sennilega langt að bíða að við verðum það.

Þetta er ástæðan til þess, að eg álít ekki sé rétt að fresta stjórnarskrárb.reyt­ingunni. Sjálfsögðustu breytinguna tel eg þá að innleiða almennan kosningar­rétt, og veita landsmönnum þau réttindi sem þingið hefir engan siðferðislegan rétt til að halda fyrir þeim.

Hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) lagðist á móti alþýðuatkvæði, og taldi það hættu­legt landi og þjóð. Hann sagði, að eg og aðrir hefðum ekki haft hug til að vera á móti því, hefðum talið það ó­vænlegt til kosningafylgis. Það má vera að hann sé hugaðri maður en eg, en engin þarf þó að bera mér þau bleyði­orð að eg hafi ekki hingað til þorað að láta uppi skoðun mína, hvernig sem aðrir hafa á málin litið. Enda var eg ekki með alþýðuatkv. til að afla mér lýðhylli, heldur af því að eg áleit það bezta mátann til að fá að vita vilja þjóðarinnar um sambandsmálið, að bera það beint undir atkvæði hennar.

Eg lýsi yfir því, að eg tel meiri hlut­ann gera þjóðinni rangt til, með því að svæfa þetta mál, enda voru fyrir 2 ár­um öll blöð, allir þingmenn og yfirleitt allir sem til sín létu heyra, sammála um það, að stjórnarskrána þyrfti að laga.