27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

24. mál, stofnun Landsbanka

Björn Kristjánsson:

Bankastjórnin hefir enn ekki ákveðið að setja á stofn neitt útbú eða skrifstofu utanlands, þó heimild fengist til þess. Hún hefir miklu fremur hugsað sér, svona fyrst um sinn, að geta haldið erlendum bönkum í skák — eins og hv. 2. þm. S. Múl. (J. 0.) komst að orði — með þessum lögum á bak við sig. Ef bankinn sæi sér hag í því, að reka sín eigin störf erlendis eins og hér, ætti bankastjórnin að hafa opnar dyr til þess. Nú sem stendur er það talsverðum örðugleikum bundið að koma út verðbréfum bankans, enda verður að gera það gegnum danska umboðsmenn. Eg veit ekki hvort viljaleysi þeirra er um að kenna, en því yrði alls ekki kent um ef bankinn annaðist sjálfur söluna.

Ef til þess kæmi að stofnað yrði útbú á Austurlandi — sem stendur hefir bankinn ekki veltufé til þess — ætti bankastjórnin að fá að ráða hvar það yrði sett á stofn. Hún ætti bezt að geta séð hvar bankanum væri mestur hagur að hafa það, en hagur bankans er líka hagur fólksins.