25.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

37. mál, vörutollur

Flutningsm. (Björn Kristjánsson):

Eg og 2 aðrir hv. þm. höfum leyft okkur að koma fram með þetta frv. Það hefir áður legið fyrir þinginu, bæði 1909 og 1911. Þetta frv., sem nú liggur fyrir, er meira sniðið eftir frv., sem eg bar fram 1909 — vegna þess hljóðs, sem eg varð var við hér í deildinni á seinasta þingi. Það varð talsverður ágreiningur um málið hér í Nd., þó var það samþykt hér í deildinni á báðum þingum, en hv. Ed. hefir í fyrra skiftið drepið það, en í hið síðara vísað því burtu með rökstuddri dagskrá Eg hefi bent á það áður, að þegar rætt væri um að leggja á mikla tolla, riði aðallega á því að gæta þrenns:

Í fyrsta lagi að loka augunum fyrir tolllöggjöf annara landa, sem væru fólksmörg í samanburði við stærðina og tollgæzlan væri fullkomin.

Í öðru lagi að gæta sérstaklega að því, að tollurinn kæmi óskertur í landssjóð og tryggja leið til þess, að koma í veg fyrir, að menn steli undan tolli.

Og í þriðja lagi að sjá um það, að innheimtan á tollunum sé kostnaðarlítil.

Þessi 3 aðalatriði verður að hafa fyrir augunum, til þess að hag þjóðarinnar verði bezt gætt — og það hefi eg haft þegar eg flutti það frv., sem áður var alment nefnt farmgjaldsfrumvarpið og lá fyrir á seinasta þingi.

Tvær aðrar leiðir væri og hugsanlegt að fara í þessu efni. önnur er sú, að leggja ákveðið hundraðsgjald á alt flutningsgjald af aðfluttum vörum. Það tryggir litla fyrirhöfn við innheimtu, kemur vel niður og rennur áreiðanlega óskert í landssjóð.

Hin leiðin er lestargjald, og er hún að mínu áliti langlökust. En allar miða þær að því sama, að gjaldið kemur óskert í landssjóð. Hundraðsgjaldið af aðflutningsgjaldinu tel eg heppilegustu leiðina — en vegna þess að eg hefi haft nauman tíma, hefi eg ekki borið það frv. fram nú. Eg hefi ekki getað samið skýrslu yfir hvað hundraðsgjaldið þyrfti að vera hátt eftir núgildandi frakttöxtum, en væntanlega rannsakar nefnd, sú er eg vona að fái þetta mál til athugunar, það atriði. Þetta frumv., sem nú liggur fyrir, hefi eg því kosið að bera fram, vegna þess, að það er að mínu áliti næstbezt.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um frv. að sinni, en vil að eins gera það að tillögu minni að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og fengið tollmálanefndinni til íhugunar.