19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

37. mál, vörutollur

Framsögum. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) hefir þegar verið svarað að mestu leyti. Það var að eins ofur lítið viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) sagði um hækkunina á kolatollinum. Hann verður að gæta þess, að sá tollur kemur að eins niður á nokkrum hluta þjóðarinnar og ekki á ríkasta hlutanum. Hann kemur harðast niður á bláfæklingunum í kaupstöðunum sem láta það sitja í fyrirrúmi fyrir matnum handa sér að borða, að kaupa sér kol í ofninn. Þess vegna er eg eindregið á móti því, að hækka tollinn á kolunum úr 1 kr. upp í 1,50 kr.

Það sem háttv. 1. þm. Rvk. (L. H.B.) sagði, snerti svo lítið frv. eða þá bæði frv. jafnt, hans frv. um verðtollinn engu síður, og man eg ekki að það hafi komið fyrir, síðan 1901 er eg kom fyrst á þing, að nokkur þm. hafi haldið l/2 tíma ræðu til að hnýta í sjálfan sig. Hann flutti frv. um 3% gjald af öllum vörum, nema heimilismunum manna er flytja búferlum og farangri ferðamanna, og þegar þess er gætt, að eftir frv. er nú liggur fyrir, fara sárfáar vörutegundir yfir þessi 3%, þá skil eg ekki hvernig hann getur verið á móti því af þeirri ástæðu að gjaldið sé of hátt.

Viðvíkjandi asfaltinu, þá getur það vel verið að það verði nokkuð dýrt þegar legst á það 25%. Það er eins og með krítina um daginn. En hvað þarf að nota mikið af þessu við byggingar? Menn verða að gæta að því að það er alveg hverfandi. Til byggingar sem kostar margar þúsundir króna þarf kannske að nota krít fyrir 25—30 aura! Það ætti því að vera auðséð að tollurinn á þessum vörutegundum gerir hvorki til né frá.

Eg finn ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði. Þó vil eg geta þess, að mér finst tollurinn á fóðrinu óeðlilegur. Legg eg svo til að frv. verði samþykt með þeim breytingum sem hv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) hefir stungið upp á, að undantekinni hækkuninni á kolatollinum.