19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

37. mál, vörutollur

Framsögum. meiri hlutans (Lárus H. Bjarnason):

Út af því sem hæstv. ráðherra (H H.) sagði, skal eg fyrst geta þess, að honum ber ekki vel saman við sjálfan sig í þessu máli fyr og nú. Það er eins og nú sé önnur þörf, en áður. En engin rök hefir hann fært fyrir sínu máli, þar sem aftur á móti eg og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) höfum sýnt hve styrkar stoðir renna undir skoðun okkar.

Hæstv. ráðherra sagði, að eg miðaði verðtollinn við 10 milj. kr. innflutning á ári. Hann hefir þarna haft jafn rétt eftir mér og hann er vanur. Eg hafði sagt 11 og gert ráð fyrir 330 þús. kr. tekjum. Eg get þessa til þess að sýna, hve bágt hæstv. ráðherra á með það að fara rétt með, jafn vel það, sem honum þó ekki væri í óhag, hvað þá heldur hitt. Annars tjáir eðlilega ekki að miða við samanlagða upphæð gjaldsins eina, þegar meta á hvort gjaldið muni verða tilfinnanlegra, síst þegar enginn hefir hugmynd um hvað annað gjaldið, farmgjaldið, mun verða. Það verður miklu fremur að líta á hitt, hvort það komi hlutfalslega jafn réttlátlega niður á landsmenn og sjávarmenn og hvernig það kemur niður á helztu nauðsynjavörur. Og það stendur fast, að verðtollurinn er miklu réttlátari að þessu leyti og kemur auk þess miklu meira niður á þeim sem ríkir eru. Eg sé að hæstv. ráðherra hristir höfuðið, en hann ætti að munda hvað hann sagði um þetta í fyrra. Farmgjaldið kemur harðast niður á fátæklinga, sem því nær eingöngu kaupa nauðsynjavörur, því að þær eru flestar þungar. Gullstássi og öðru slíku prjáli fer aftur á móti ekki mikið fyrir, og það kaupa ekki aðrir en ráðherrar og prófessorar og þess háttar fólk, en það á líka sannarlega að borga fyrir það. Það verður varla betur talað á móti þessu frumv. en hæstv. ráðherra gerði í fyrra, og það hlýtur að horfa eins við honum nú, nema að því leyti, að nú á hann að fara með tekjurnar, sem með því nást, þótt eg vilji ekki geta þess til, að það eitt ráði afstöðu hans nú. Þetta er ranglætisfrv., sem ekki verður varið.

Það kemur að vísu ekki mér við hvað hæstv. ráðherra (H. H.) og hv. 2. þm. Rang. (E. P.) eigast við. Sá háttv. þm. getur svarað fyrir sig sjálfur. En af því að eg greip fram í áðan, skal eg geta þess, að eg hefi það eftir einum háttv. þm., sem ekki situr svo fjarri mér, að hæstv. ráðherra hafi sagt við hann að hann ætti vís 16 atkv. fyrir farmgjaldinu hér í deildinni þegar hv. Ed. væri búin að drepa verðtollinn. (Ráðherrann: Þetta hefi eg aldrei sagt). Eg segi ekkert um það, en maðurinn var háttv. 1. þm. K -G. (B. Kr.) og þeir um það, hvor þeirra segir satt, en eg get þessa af því, að vera mætti að hv. 2. þm. Rang. (E. P.) hefði heyrt eitthvað líkt, og því sagt það sem hann sagði.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) virðist ekki hafa tekið eftir því, að þetta frv. hefir í för með sér 1 kr. toll á hverja smálest af kolum, svo að mér skilst að við losnum ekki við kolatoll, þótt það yrði sþ. Hann var að tala um að hér væru orðnar langar umr. Já, það væri líka skrítið, ef ekki mætti ræða frv. nokkuð ítarlega nú. Hér er um frv. að ræða, sem ætlast er til að veiti landinu tekjur til frambúðar, og þar sem það gekk umræðulaust til nefndar við 1. umr. og var sömuleiðis lítt eða ekki rætt við 2. umr. — má vera að því hafi verið slegið á frest til þess að fram gæti komið þetta „trick“, sem allir vita undan hvers rifjum er runnið —, þá virðist ekki alveg ónauðsynlegt að ræða það nú, jafn mikið „kjaptshögg“ og það er á öll „princip“ gildandi laga og jafnframt á suma, þá sem áður börðust móti því, enda get eg engu lofað um það, að taka ekki oftar til máls, þó að margir þykist þess fullvissir, hvernig þessu máli muni lykta.