16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

38. mál, skipun læknishéraða (Hnappdælahérað)

Framsögum. (Benedikt Sveinsson):

Síðan lögin um skipun læknahéraða voru samþ. 1907, hefir það komið í ljós, að enn vantar lækna á ýmsum svæðum, og að landið er hvergi nærri læknum skipað til hlítar, heldur þarf að bæta fleirum við, enda hafa 4 ný læknahéruð verið stofnuð síðan og nú liggja enn fyrir þinginu margar beiðnir um enn fleiri. Nefndin, sem skipuð var í þetta mál, hefir ekki séð sér fært að leggja með nema einni af þessum beiðnum í þetta sinn, og skal eg leyfa mér að vísa til nefndarál. um ástæðurnar fyrir því. En þar sem hún hefir metið Hnappdælahérað mest, þá vil eg benda á það, að það var samþ. í Nd. í fyrra, að stofna það hérað, en í Ed. var það felt burtu, og kemur það nú hér fram aftur. Málið er því öllum kunnugt, og þarf eg ekki að fara nákvæmlega út í það hér, að lýsa staðháttum þar vestra. Þeir sem farið hafa yfir Fróðárheiði, vita að það er örðugur vegur og ilt að þurfa að vitjalæknis yfir hana úr Staðarsveit til Ólafsvíkur. Sama er að segja um Kerlingarskarð, að um þann fjallveg er erfitt að vitja læknis í Stykkishólm. Í þriðja lagi er langsótt til læknis í Borgarnes.

Við viljum því ráða háttv. deild til þess að samþykkja að þetta læknishérað verði stofnað. Eg álít ekki að það liggi fyrir hér, að ræða um hin héruðin, og skal því ekki fjölyrða um þau, en þar sem þetta eina fékk góðar undirtektir í fyrra, þá vænti eg hins sama nú