06.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Tryggvi Bjarnason:

Eg býst ekki við að geta greitt frv. eins og það liggur fyrir, mitt atkvæði. 2. og 3. gr. get eg fallist á, en alls ekki á breytingu þá sem farið er fram á með 1. greininni. Það er að vísu rétt og skylt, að hlynna að barnakennurunum, en eg sé ekki betur en það sé gert. Laun þeirra eru viðunanleg þann tíma ársins sem þeir eru við kensluna. Farkennarar og eftirlitskennarar hafa, auk fæðis, húsnæðis og þjónustu, 144 kr. fyrir 6 mánuði. Fyrsti kennari við heimangönguskóla hefir 18 kr. um vikuna, þ. e. 432 kr. fyrir veturinn. Aðrir kennarar við þá skóla hafa 12 kr. um vikuna eða 288 kr. fyrir veturinn. Aðalkennari við heimavistarskóla 25 kr. á viku, þ. e. 600 kr. fyrir 6 mánaða kenslu. Laun þessi eru að vísu ekki svo há að kennararnir geti lifað af þeim eingöngu. En þá 6 mánuðina sem þeir eru ekki við kensluna geta þeir hæglega stundað aðra atvinnu. Landssjóður er þegar búinn að leggja fram til styrktarsjóðs barnakennara, síðan hann var stofnaður, 8.000 kr., 5.000 kr. í stofnfé og 1.000 kr. á ári síðan. Eftir því sem nefndin skýrir frá á sjóðurinn nú um 12—13 þús. kr. og með líkum tekjum framvegis ætti hann eftir 4 ár að hafa náð hámarkinu 20.000 kr. Og þegar hann hefir náð því má úthluta 3/4 af öllum tekjum hans. Það verða sem næst 2.600 kr. á ári. Eg sé ekki betur en með því megi styrkja kennara allríflega, án þess að tekjur sjóðsins séu auknar með hækkuðu tillagi úr landssjóði.

Nefndin minnist á, að þetta sé ekki stór upphæð, þegar borið sé saman við styrki er aðrir sjóðir fái, t. d. ellistyrktarsjóðurinn. En þess ber að gæta, að barnakennarar eins og aðrir menn, hljóta að hafa rétt til styrks úr þeim sjóði. Þessari stétt er því trygður tvöfaldur styrkur, bæði úr þeirra eigin sjóði og úr ellistyrktarsjóðnum ef þeir þurfa með. Eg hefi sem sagt, ekki heyrt neitt koma fram, er mæli með auknu fjárframlagi úr landssjóði til styrktar þessum sjóði, og tel fyrir mitt leyti enga ástæðu til þess, að svo stöddu.