08.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Tryggvi Bjarnason:

Eg hefi leyft mér, ásamt 2 öðrum hv. þingm., að koma fram með brt. á þskj. 158 við þetta frv.

Eg tók fram við 2. umr. ástæðumar fyrir því, að eg er mótfallinn 1. gr. frv.

Til viðbótar við það, sem eg sagði þá, skal eg taka það fram, að mér skilst að ef stjórn kennarafélagsins álítur svo brýna nauðsyn til að efla sjóðinn, þá hefði hún getað bent flutningsmönnunum á, að taka í frv. ákvæði um, að hækka skyldi hundraðsgjald það, sem kennarar leggja í sjóðinn af launum sínum. Það mætti búast við, að þá gengi betur að fá þessa fjárveitingu í gegn. En eg býst við að þessi tilmæli séu komin frá einstökum mönnum, en ekki frá kennarafélaginu í heild sinni.

Eg benti á það við 2. umr. að sjóðurinn mundi innan skamms ná lágmarki sínu, 20.000 kr., og þá mundi sá styrkur, sem kennarar eða ekkjur og börn dáinna kennara gætu fengið úr sjóðnum líka fara hækkandi. En eg verð að telja það óviðeigandi, að þingið fari nú að samþykkja nýja fjárveitingu úr landssjóði, meðan ekki er séð fyrir því að bæta fjárhaginn, því enginn veit hvernig þeim frv., sem nú liggja fyrir skattamálanefndinni, reiðir af.

Eg gat þess einnig við 2. umr., að barnakennarar ættu heimtingu á styrk úr ellistyrktarsjóðnum. Hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) sagði að eg þyrfti ekki að óttast að þeir fengju styrk af þeim sjóði, fyrst til væri sérstakur styrktarsjóður barnakennara. En því er þar til að svara, að bæjarstjórnum og hreppsnefndum er bæði rétt og skylt að veita þeim í styrk úr ellistyrktarsjóði, sem öðrum; í lögum um þann sjóð er engin undantekning til, sem réttlæti það, að neita þeim um styrk úr þeim sjóði, ef svo er ástatt fyrir þeim, sem lögin ákveða um styrkþega. Þeir borga í ellistyrktarsjóðinn alveg eins og aðrir, og eiga því heimtingu á að fá styrk úr honum eins og aðrir, sem til sjóðsins borga. Eg tel þá ekki síður en aðra vel að þeim styrk |komna.

Það stendur enn óhrakið, sem eg sagði við 2. umr., svo eg sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa br.till.