08.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Jón Jónsson Rvk.:

Herra forseti! Eg hefi látið það í ljósi í samtali bæði við háttv. þm., sem seinast talaði og aðra, að eg teldi það varhugavert að fara fram á auknar fjárframlögur úr landssjóði að svo stöddu. En eg álít þó að undantekningar megi eiga sér stað, og einmitt hér tel eg brýna ástæðu til undantekningar. Mér finst það varhugavert, að samþykja þessa br.till., sem hér hefir komið fram, af því að eg get ekki séð að sjóðurinn sé fær um að líkna neitt ekkjum og börnum látinna kennara, neina þessi styrkhækkun komi til. Mér finst það verulega ranglátt, ef kennari, sem af skornum launum hefir goldið í sjóðinn í mörg ár, deyr eftir langt og þarft æfistarf, að ekkja hans geti ekki gert sér von um að njóta styrks af því fé, sem hann hefir lagt í sjóðinn.

Eg held, yfirleitt, að alþýðukennarastéttinni hér á landi hafi ekki verið gert eins hátt undir höfði hingað til og vert er. Það var bent á við 2. umr. hversu þýðingarmikið starf það er, sem þessi stétt hefir á hendi, og háttv. flutn.m. (L. H. B.) vitnaði til ummæla mikils metins útlendings þar að lútandi. En við þurfum ekki að sækja það til útlanda, við þurfum ekki annað en að gripa í eigin barm. Eg veit, hvað eg á þeim manni að þakka, sem fyrstur beindi göngu minni inn á lærdóms- og mentabrautina og vakti hjá mér löngunina til að verða nýtur maður föðurlandi mínu. Mér er ánægja að geta vottað honum hér opinberlega þakkir fyrir það sem hann hefir unnið, og það því fremur, sem hann hefir of litla viðurkenningu hlotið fyrir sitt góða starf, að minni skoðun. Þessi maður er Sigurður Sigurðsson, fyrrum barnakennari við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi.

Það hefir margur orðið betri og nýtari maður fyrir áhrif góðs kennara. Þetta eitt með öðru gerir það að verkum, að eg vil reyna af fremsta megni að verða við kröfum kennarastéttarinnar um að bæta hag hennar. Þar til liggja ýms rök, sem tekin hafa verið fram við fyrri umr. En eg skal nú ekki orðlengja þetta meira, því eg hefi tekið mér það fyrir stefnu að lengja ekki umræður um skör fram á þessu þingi.