29.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Flutningsm. (Lárus H. Bjarnason):

Eg vil þakka háttv. þm. fyrir yfirleitt góðar undirtektir undir málið. Það er ekki nema eðlilegt, að margar fyrirspurnir og athugasemdir komi fram viðvíkjandi frv. og skal eg reyna að leysa úr þeim eftir megni, þótt eg búist ekki við að geta svarað þeim til fulls við þessa umr. Ef frv. verður vísað til skattamálanefndarinnar, þá mun hún hafa í huga allar þær athugasemdir, sem fram hafa komið.

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) stakk því fram, hvort ekki mundi heppilegra að hafa misserisgjöldin nokkuð hærri en gert er ráð fyrir í frv. Eg býst ekki við að neitt væri því til fyrirstöðu frá löggjafarvaldsins hálfu, en það gæti verið nokkur áhætta að setja þau mjög mikið upp, vegna leyfisleitenda — hætt við að þeir mundu síður vilja ganga að því, en óhætt og jafnvel sjálfsagt er að reyna það, enda skal það gert. Líka gæti verið heppilegra að setja leyfisleitendum einhvern ákveðinn frest þangað til lotteríið tæki til starfa, til þess að þeir gætu ekki dregið málið á langinn.

Háttv. ráðherra (H. H.) rengdi það, að misserisgjaldið mundi nema 100 þús. kr., en það verður ekki rengt með réttu. Raunar er það ekki víst, að gjaldið verði altaf nákvæmlega 100 þús. kr. Það fer eftir gangverði frankans. Nú sem stendur er gangverðið sagt 72,8 au., og verður þá misserisgjaldið sama og ráð er gert fyrir í frv. Hækki gangverðið aftur á móti, hækkar misserisgjaldið að sama skapi. En niður úr 72 au. fer gangverðið aldrei og mundi þá misserisgjaldið nema 99.360 kr. — að eins 640 kr. fátt í 100 þús. kr.

Hæstv. ráðherra (H. H.) fann að því nú, að ákveðið er í frv., að 3 danskir menn skuli sitja í stjórn lotterísins. En það var ákveðið vegna þess, að við bjuggumst við, að danskir lotteríeigendur mundu þá síður leggjast á móti málinu. Annars skiftir það ekki miklu máli hverrar þjóðar mennirnir eru, því að ráðherra Íslands á að útnefna þá alla, bæði þá íslenzku og dönsku og búa til erindisbréf þeirra o. s. frv.

Þá þótti hæstv. ráðherra það athugavert við frv., að ekki mætti selja seðlana í Danmörku. Það þótti okkur nauðsynlegt ákvæði, vegna þess, að hætt er við að okkur gengi illa að koma málinu fram, ef lotteríið ætti að keppa við dönsku lotteríin — Klasse- og Kolonial-lotteríið. Frá Íslendinga hálfu væri auðvitað ekkert því til fyrirstöðu, að seðlarnir yrðu seldir í Danmörku, en eg er hræddur um að slíkt ákvæði gæti orðið málinu Þrándur í götu.

Bæði háttv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh) og hæstv. ráðherra (H. H.) þótti einkaleyfistíminn nokkuð langur — 40 ár. Eg get fullvissað þá um, að leyfisleitendur leggja ekki mikið upp úr þessu ákvæði. Hitt ber frekar að líta á, að eftir 15 ár getur löggjafarvaldið heimtað að lotteríið hætti störfum sínum.

Út af ræðu háttv. þm. Dal. (B. J.), þá skal, hvað við víkur þeim athugasemdum hans, er fóru í sömu átt og hæstv. ráðherra (H. H.) og hv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.), vísað til svars míns til þeirra. En viðvíkjandi því, er hann sagði um stimpilgjaldið, þá skal eg geta þess, að leyfishafendur búast við að þurfa að stimpla seðlana í Danmörku, og þar sem þeir verða að borga 2% af upphæð iðgjaldanna til landssjóðs, þá þykjast þeir ekki hafa ráð á að bæta við sig stimpilgjaldinu.

Viðvíkjandi láninu á nafninu, þá skal eg geta þess að það er háttv. þm. Dal. (B. J.) auðsjáanlega tilfinnningamál. En fyrir okkur flutningsm. er þetta frumv. alls ekki tilfinningamál — það er okkur höfuð mál en ekki hjartans mál — ekkert annað en óbrotið fjárspursmál fyrir landssjóð. En sé það háttv. þm. Dal. (B. J.) tilfinnningamál, þá er ekki hægt að ræða það með rökum við hann. Annars er okkur flutningsm. þetta mál ekkert kappsmál. Við flytjum það að eins til þess að verða við ósk hæstv. ráðherra um að alþingi afli landssjóði fjár. Eg bar frv. undir einn hv. þm. í Ed;, einhvern glöggasta mann þingsins á fjármál, og bað hann að líta yfir það. Hann fann ekkert að frv. Honum þótti, sem mér, frv. færa landssjóði fundið fé. Eg get ekki séð, að eg misbjóði á neinn hátt sóma landsins, þótt eg flytji frv. sem aflar landssjóði mikilla, óvæntra, tekna. Geri aðrir betur!