07.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Framsögum. meiri hl. (Lárus H. Bjarnason):

Eg skal ekki verða mjög margorður í þetta sinn; bæði er það, að eg er talsvert kvefaður og svo hefir deildin sýnt mér þann sóma að kjósa mig í nokkuð margar nefndir, svo að eg hefi verið talsvert upptekinn þessa dagana.

Við fyrstu umr. málsins lýsti eg helztu aðalatriðum frv, svo að nú liggur ekki annað fyrir en að gera grein fyrir þeim brtill., sem nefndin hefir leyft sér að koma fram með. Því miður gat nefndin ekki orðið samferða, þar sem einn þm., hv. þm. Dal. (B. J.), klofnaði frá.

Við 1. umr. málsins komu fram nokkrar athugasemdir við frv., bæði frá hæstv. ráðh. (H. H.) og 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) o. fl. Nefndin hefir tekið allar þessar athugasemdir til íhugunar.

Áður en eg held lengra áfram, þá vil eg biðja hv. þm. að athuga það, að fyrir okkur, meiri hluta nefndarinnar, er þetta mál ekkert annað en peningaspursmál.

Margar af brtill. okkar eru svo vaxnar, að ekki þarf að eyða orðum að þeim eru ekki annað en orðabreytingar. — Svo er um 1., 5., 8., 10., 12., 13., 14., 17. og 19. brtill. okkar á þgskj. 147. Svo er og um eina af brtill. hv. minni hluta, nfl. þá, að kalla frumv. frv. til laga um happdrætti, í stað peningalotterís. En eg þykist viss um það, að þótt þessi brtill. næði fram að ganga, þá mundu menn alment ekki nefna annað en lotterí.

Sú fyrsta af brt. okkar, sem eg skal víkja að, og er dálítil efnisbreyting, er brt.

Hv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) þótti einkaleyfistíminn — 40 ár — nokkuð langur. Þó það skifti nú raunar ekki miklu máli, þar sem landið getur heimtað, að lotteríið hætti störfum sínum eftir 15 ár, þá hefir nefndin samt orðið við þessari ósk og fært 40 ár niður í 30 ár jafnlangan tíma og Íslandsbanki hefir rétt til seðlaútgáfu —.

9. brt. er dálítil efnisbreyting, en ekki mikil. Það var vegna tilmæla og athugasemda hæstv. ráðh. (H. H) að við komum með hana.

Þá býzt eg við að hv. þm. muni þykja 11. brt. talsverð efnisbreyting. í frv. var landssjóði ekki áskilið hærra gjald en 2% af iðgjöldunum fyrir selda hluti. Nú hefir nefndinni heppnast að þoka leyfishöfum svo langt, að þeir hafa gengið inn á, að þessi tala yrði færð upp í 4%, án þess þó að lágmarkið, 100 þús. kr. á misseri, sé fært niður. Komist þessi breyting á, sem eg þykist viss um, og verði lotteríið rekið, þá aflar það landssjóði helmingi meiri tekna en áður var gert ráð fyrir. Komi það fyrir, að allir hlutirnir, 50.000 að tölu, seljist, þá mundu tekjur landssjóðs nema yfir 400.000 kr. á ári, og er það allálitleg fjárupphæð og ekki til þess að drepa hendi við. En aldrei verða árstekjurnar minni en 200.000 kr., og eru þær landssjóði trygðar með veði, sem leyfisleitendur hafa lofað að leggja fram áður en lotteríið tekur til starfa.

Eg býst við, að hv. þm. Dal. (B. J.) og þeir hv. þm., sem hafa álitið það óhæfu að dreifa miklu af seðlum út um landið sjálft, hafi tekið eftir 16. brtill. nefndarinnar. Með henni er girt fyrir, að hér á landi verði seldir fleiri en 1000 hlutir.

2. og 15. brt. nefndarinnar heyra saman, og er nánast orðabreyting. Líku máli gegnir um 3. og 4. brtill. 7. brt. eða síðari hl. hennar varnar væntanlegum leyfishöfum að draga stofnun lotterísins um skör fram. 18. brt. er nokkurnveginn sjálfsögð úr því að misserisgjaldið til landssjóðs er hækkað um helming, enda stimpilgjald ekki til, að lögum vorum.

Eg sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um álit hv. minni hl., áður en framsögum sjálfur hefir talað, þó skal eg taka það fram, að eg get ekki kannast við, að það sé nokkuð féglæfrafyrirtæki, sem hér á að stofna. Það er eitt af þessum „slagorðum“, sem því miður mega sín svo mikils hér á landi og menn eru altof fúsir á að renna niður. Það er ekki hægt að kalla kaup og sölu, sem gengur fyrir sig eftir áður ákveðnum reglum, féglæfra, enda engum þröngvað til að kaupa seðlana. Hitt eru aftur á móti féglæfrar, að slá „plat“ eða krónu, þar veldur tilviljunin ein vinning og tapi. Það eru líka féglæfrar, ef hafðir eru peningar af mönnum eða atriði sem máli skifta, hvort heldur sagt er beint ósatt eða verulegum atriðum er leynt, en engu slíku verður hér til að dreifa.

Áður en dregið er, er gefin út skýrsla um, hve margir seðlarnir séu, hve margir vinningarnir og hve háir. Menn vita þannig að hverju þeir ganga. Eg get ekki kallað mig neinn féglæframann, en samt hefi eg spilað lítilfjörlega í lotteríi síðan 1897, og stenst á hvað unnist hefir og tapast. Hverjum er frjálst að spila eða spila ekki, og skynsamur maður skoðar það, sem hann leggur fram, auðvitað eins og tapað fé, og leggur því ekki meira fram en hann má missa.

Háttv. þingm. finnur að því, að hér sé verið að stofna ríkiseinokun — en það er „condicio sine qua non“ — lotterí verða ekki rekin öðruvísi en af ríkinu sjálfu, eða þá af einstaklingum með einkarétti, enda er fyrirkomulagið alstaðar svo í öllum löndum. Það er og sitt hvað, einokun á sölu lotteríseðla, og einokun á matvöru eða öðrum nauðsynja- og framleiðsluörum, svo sem steinolíu og kolum, sem enginn maður kemst hjá að kaupa.

Háttv. þingm. spáir því, að úti muni um virðingu vora og lánstraust, ef vér leyfum lotteríhald, en nefnir þó sjálfur 10 ríki, þar á meðal nokkur stórveldi, er leyfa lotterí, og þykir mér þar kenna nokkurs ósamræmis.

Þá finnur hv. þm. Dal. (B. J.) að því, að þetta einkaleyfi er bundið við ákveðin nöfn. Eg get ekki séð hvernig fyrirtækið getur orðið trygt á betri hátt en þann, að löggjafarvaldið sjálft hafi hönd í bagga með, hverjum leyfið sé veitt. Um þessa 3 menn — eða að minsta kosti 2 — er það öllum kunnugt, að þeir eru engir féglæframenn, er væri farið að veita leyfið nafnlaust, þá væri engin trygging fengin fyrir því, að nokkuð yrði úr fyrirtækinu, enda fullkomin óvissa um það, hvort hæfir menn hreptu leyfið.

Sé það rétt hermt, sem eg hefi heyrt fleygt, að verið sé að stofna hlutafélag til lotteríhalds hér í bænum, og séu nöfnin, sem nefnd eru, rétt, þá mundi það lotterí sízt verða betra en það, sem hér um ræðir. Líka er þess að gæta, að alstaðar annarsstaðar, þar sem veitt er einkaleyfi til lotterístofnunar, þá er einkaleyfið bundið við nöfn. Svo er t. d. um Kolonial-lotteríið danska, þar var einkaleyfið veitt þeim Richelieu admiral og Heide konferenzráði. Svo er einnig um einkaleyfið til stofnunar Íslandsbanka, það var veitt á nöfnin: Arntzen og Warburg. Slíkt þykir meiri trygging heldur en stjórnin haldi nokkurskonar uppboð á einkaleyfinu og veiti þeim, sem hæzt býður, hvernig sem maðurinn er, en það mundi stjórnin verða að gera.

Vegna þess að þetta mál er fyrir mér og meðnefndarmönnum mínum ekkert annað en hreint peningaspursmál, þá vil eg vara hv. þingdeild við, að samþykkja nokkra þá tillögu, sem gæti gert það ókleyft að ná einkatilganginum með frv., tekjuauka til handa landssjóði. Það getur t. d. ekki komið til nokkurra mála, að leyfisleytendur noti sér einkaleyfið, ef á að fara að færa vinningana úr 70% upp í 80% af iðgjöldunum. Með öllum þeim útgjöldum, sem þeir þurfa að standa straum af, minsta kosti fyrst um sinn, yrði það þeim ókleyft að ráðast í fyrirtækið, ef þessi brt. næði fram að ganga. Þeir ætla t. d. að gjalda útsölumönnum sínum hærra kaup en tíðkast, ætla að borga þeim 15% í sölulaun.

Enn segir hv. þm., að við höfum ekki vald til þess að setja á stofn lotterí suður í Khöfn, sem lyti íslenzkum lögum. Þar skjátlast hv. þm. Við höfum samþykt lög, sem koma til framkvæmda í Danmörku og binda danska embættismenn jafnvel utan Danmerkur. Svo er t. d. um farmannalögin, sem leggja dönskum konsúlum ýmsar skyldur á herðar, skipsskrásetningarlögin frá 1895, lög. um stytting á málskotsfresti til hæztaréttar frá 1905 o. fl. Þessa mótbáru háttv. þingmanns þarf því eigi að óttast.

Þá skal eg benda á það, að það er villa í nefndaráliti hv. minni hluta á bls. 3. Þar stendur, að Klasse-lotteríið selji 100.000 seðla á ári fyrir 50 kr. stykkið. Það er ekki rétt. Lotteríið selur 130.000 seðla á misseri og muni eg rétt kostar hver heill seðill 60 kr., eða 120 kr. á ári, auk stimpilgjalds.

Þá finnur hv. þm. að því, að í 4. gr. standa orðin „utanríkis“, sem hann vill breyta í „utan Íslands“. Hv. þm. heldur víst að landinu stafi einhver innlimunarhætta af þeim orðum, veit líklega að í fjölda mörgum lögum, bæði gömlum og nýjum standa þessi orð og jafnvel í lögum, sem hv. þm. sjálfur hefir verið með í að búa til. Því reis hann ekki upp þá? En ef þetta er honum mikill þyrnir í augum, þá má auðvitað breyta orðunum í utan Danmerkur og nýlenda hennar.

4. brtill. hv. þm., sem fer fram á það, að ekki megi skifta seðli í smærri hluta en áttunga, er nefndin eftir atvikum meðmælt. Annars mun seðlum óvíða vera skift í smærri hluti en áttunga.

Það væri náttúrlega meinlítið, að nota orðið „happdrætti“ í stað lotterís, en eg er hræddur um að enginn verði til þess að nota það, nema ef til vill hv. þm. og þá líklega ekki nema með köflum.

Íslenzkunni stendur engin hætta af því þó að tekin séu upp í málið einstök útlend orð, enda mýmörg slík orð til í málinu. Eg tel það mun betra en að vera að rembast við að finna upp önnur eins ónefni eins og sum íslenzku heitin í metrakerfinu, sem enginn skilur, nema útlendu heitin standi við hlið nýgervingsins (Bjarni Jónsson: Það sýnir hvað fólk er vel að sér í móðurmálinu). Það getur vel verið að eg sé ekki svo vel að mér í íslenzku sem skyldi, en hitt veit eg, að jafnvel beztu íslenzkufræðingar skilja ekki þau ónefni.

Um 5. brt. er þegar talað.

Þá vill. hv. þm. með 6. brtill. láta 10% af vinningum ganga til landssjóðs, en það kemur sannarlega ekki heim við féglæfratalið hjá hv. þingm. Séu það fjárglæfrar að viðskiftavinir lotterísins fái ekki nema 70% af iðgjöldunum, þá væri það enn meiri fjárglæfrar að taka 10% af vinningum þeirra. Þm. hlýtur að eiga við viðskiftavini lotterísins með fjárglæfratali sínu, því að hinn aðili lotterísins, landssjóður, leggur ekkert, alls ekkert á hættu.

7. brtill. þm. er gersamlega óaðgengileg. Hún miðar ekki til annars en að drepa frumv. og þar með svifta landssjóð miklum tekjum, því að það er ekki viðlit að lotteríið geti komist á, ef það á að standa á Íslandi og því að vera stjórnað þar. Lotteríið er bygt á seðlakaupum útlendra manna, en þeir mundu ekki skifta við lotterí er rekið væri hér á landi, jafnbráðlátir og þeir eru.

Alveg sama er að segja um 9. brtill., að hækka hundraðsgjaldið til landssjóðs alt upp í 10%. Það væri fullkomin frágangssök fyrir leyfisleitendur að taka við leyfinu með þeim kjörum.

Aftur á móti býst eg við að leyfisleitendum megi standa á sama hvar tryggingarféð er geymt, hvort heldur í Þjóðbankanum í Kaupmannahöfn eða í Landsbankanum í Reykjavík, enda má geyma það í Landsbankanum eftir frumarpinu.

11. og 12. brtill. hv. þm. getur nefndin ekki aðhylst, af því að þær myndu spilla fyrir framgangi frumvarpsins, líklega valda því, að það yrði ekki staðfest.

Aðrar breyt.till. hv. þm. Dal. (B. J.) skifta litlu máli og kæri eg mig ekki um að fara út í þær. Nefndin er sammála um að samþykkja enga af brtill. hans, nema þá 4.

Leyfisleytendur fullyrða að lotteríið verði stofnað, fái þeir leyfið, og eg get bætt því við, að þeim er það meinfanga laust, þótt fresturinn sé styttur að mun. Þeir segjast vera við því búnir að setja það á stofn jafnvel 1. júlí 1913, og lofa að leggja fram ábyrgðarfé fyrir lágmarki misserisgjaldsins, áður en lotteríið byrjar.

Landssjóður mundi eftir því geta haft tekjur af lotteríinu næsta ár.