20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í C-deild Alþingistíðinda. (1060)

108. mál, strandferðir

(Ólafur Briem:

Eg vildi að eins gera stutta athugasemd við það sem hv. 1. þm. G -K. (B. Kr.) sagði. Eg get sem sé ekki séð, að okkur ástæða væri til þeirrar ofanígjafar, sem hann beindi að mér. Eg sagði ekki neitt í garð Eimskipafélagsins eða bráðabirgðastjórnarinar, er gæti skilist sem ásökun. Þó að eg gæti þess, að félagið væri tregt til að sinna strandferðum, þá féll ekki eitt orð í þá átt að sú tregða væri óréttmætt. Bráðabirgðarstjórnin var í sínum fylsta rétti að færast undan því að sinna strandferðunum, og hún hefir meira að segja fært ástæður fyrir þeirri undanfærslu. Eg er algerlega samþykkur bráðabirgðastjórninni um, að strandferðirnar hafa hingað til verið þeim félögum fremur til byrði, sem hafa haft þær á hendi, enda hefir þetta verið alment álitið. Samgöngumálanefndin virðist hugsa annað, því að hún telur þessar ferðir þvert á móti gróðavænlegar. Þó að þess megi vænta, að sú komi tíðin, að siglingar umhverfis landið beri sig, þá tel eg varúðarvert, eins og nú er ástatt, að gera sér mjög glæsilegar gróðavonir af þeim. Að þessu leyti þykir mér samgöngumálanefndin hafa gengið alt of langt í því að gylla þetta fyrirtæki, með því að allar öfgafullar gyllingar vekja vonbrigði eftir á. Þegar leggja á út í slíkt fyrirtæki, er tilgangslaust að vera að gylla það fyrir sér á allar lundir, miklu nær að hugsa sem svo, að líklegt sé að menn þurfi að leggja eitthvað í sölurnar til þess að koma því í framkvæmd.