20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í C-deild Alþingistíðinda. (1087)

91. mál, kornforðabúr til skepnufóðurs

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Eg skal ekki þvæla málið lengi. Eg kannast við mótbárur meiri hlutans, að málið sé ekki nægilega undirbúið eða skeggrætt. Þetta er aðalmorðvopnið á allar hugmyndir, sem fram koma. Annars er hugmyndin ekki ný. Hún sýnist blasa við hverjum manni, því að til hvers á að gera lög um að menn megi hafa kornforðabúr. Eg hygg, að menn megi. hafa þau án allra laga, og þurfi ekkert leyfi til þess. Eg skal láta þess getið, að í Dalasýslu hafa menn þegar stofnað kornforðabúr í hverjum hreppi. Þeir voru ekkí að bíða eftir þessum lögum. Nei, Dalamenn þurfa ekki þessara laga við, né heldur aðrir þeir sem hafa dáð í sér til þess að koma þessu í framkvæmd. En það eru hinir, sem ekki hafa mannrænu í sér til að sjá sinn eigin hag, sem þarf að ýta undir með lögunum. Það þarf að gera þeim að skyldu að koma sér upp kornforðabúrurn, það er ekki nóg að leyfa þeim það.

Það er ekki hægt að segja, að slík lög mundu þröngva kosti manna eða korna í bág við persónufrelsi þeirra, að minsta koati ekki fremur en mörg önnur lög. Embættismönnum er gert að skyldu að kaupa lífeyri handa konum sínum. Ekki er það síður haft á persónulegu frelsi. — Þetta er sannarlega ekkert nýtt ákvæði og þarf engan sérstakan undirbúning, það má samþykkja það í dag alveg undirbúningslaust. Eg vil að menn séu lausir við orðaskvaldur úr mér um þetta. Þess þarf ekki heldur við, það er öllum augljóst, að það er rétt sem eg segi. Eg vil að menn undirskrifi með nafni sínu skoðun sína.