27.08.1913
Neðri deild: 44. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í C-deild Alþingistíðinda. (1169)

37. mál, hagstofa Íslands

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Flest af því, sem eg hafði ætlað mér að segja, hefir þegar verið tekið fram.

Eg skal þó geta þess, að það er eðlilegt, að eg sé þessu máli hlyntur. Nú eru 32 ár síðan eg hreyfði málinu, allra manna fyrstur, í »Skuld«, sem þá var gefin út í Kaupmannahöfn.

Mótstöðumenn þessa frumv. hafa gert kostnaðinn að grýlu. Það er satt, að kostnaðurinn verður meiri en frumvarpið gerir ráð fyrir; skrifstofukostnaður, ljós og hiti o.s.frv. er þar ótalinn. Þótt eg geti ekki fallist á það. sem hv. þm. Dal. (B.J.) sagði, að kostnaðurinn mundi verða sáralitlu meiri en nú er við hagskýrslurnar, þá fælir það mig mig ekki frá frumvarpinu, að kostnaðurinn vagi nokkuð, af því að eg tel frumvarpið nauðsynlegt. Það má telja vist, að skýrslurnar verði töluvert meiri og fullkomnari en áður. Við það hlýtur meðal annars að vaxa prentunarkostnaður á. þeim. Húsaleigu mætti spara með því að nota prestaskólann handa hagstofunni. (Einhver: Pósthúsið notar hann nú). Ekki hér eftir, því að nú á að stækka pósthúsið. Hagstofan mundi komast af með prestaskólann fyrst um sinn, þar til er landssjóður selur það hús. Landssjóður á þar mjög verðmæta lóð, og mundi andvirði hennar, ef seld væri, nægja til þess að setja upp hús handa hagstofunni.

Það mun hver sá maður, sem við landsmál hefir fengist, hafa fundið til þess, hve mikil þörf er á því, að hagskýrslur landsins séu nýjar og í góðu lagi, og rekið sig á það, að í hagskýrslur vorar vantar margt, sem nauðsyn er að fá vitneskju um Á þessu ræður frumvarpið bót, sbr. 1. gr. þess, og því vil eg styðja það.

Breyt.till. háttv. l. þm. Skagf. (Ó. Br.) á þskj, 566, um að hlaða á hagstofuna endurskoðun ýmsra opinberra sjóða, get eg ekki aðhylzt af tveim ástæðum. 1: Er hér um alveg óskylt verkefni að ræða. Hagfræði er alt annað en endurskoðun reikninga. 2) Er hér nú á ferðinni frumvarp um löggilta endurskoðendur, svo langt komið, að nefndarálítið kemur í dag. Það frv. bakar landssjóði engan kostnað, heldur þvert á móti koma landssjóði tekjur af leyfisbréfum til handa slíkum endurskoðendum. Eg vona, að háttv. þm. Skagf. sjái því, að breyt.till. hana er óþörf; enda er það víst að hagstofan mun hafa meira en nóg að gera þótt þessu sé ekki á hana hlaðið.