29.08.1913
Neðri deild: 46. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í C-deild Alþingistíðinda. (1201)

13. mál, vörutollur

Bjarni Jónsson; Eg gæti, eins og háttv. þingm. S.-Þing, staðið hér í allan dag og talið upp vörur, sem hægt væri að setja í umbúðir og skrifa svo utan á í að alt önnur vara væri í umbúðunum. Menn gætu sett sóda í stað demanta, kol í stað gulls o.s.frv. Það þýðir ekki að standa hér og segja það sem allir vita, að það er hægt að skrifa vitlaust utan á alla bögla.

Spurningin er að eins sú, hvort þessar breytingar, sem hér er farið fram á, geri hægara að svíkjast undan tolli en áður. Og til þess eru ekki miklar líkur, þar sem allar breytingar eru gerðar í samráði við tollheimtumann.

Háttv. 2. þm. S. Múl. (G. E.) hélt, að við gerðum einhvern óvinafagnað, ef við legðum toll á aðflutta báta, vegna þess að Austfirðingar kynnu ekki að smíða þá. Eg á bágt með að trúa þessu Mér er kunnugt um að á Breiðafirði eru menn færir um, að smíða ina beztu báta, sem jafnast fullkomlega á við norska báta. Eg gæti trúað, að Íslendingar væru líka hagir, þótt þeir byggju á Austfjörðum. Íslendingar eru með beztu bátasmiðum, lagið er ágætt og hafi þeir tekið útlent lag til fyrirmyndar, þá hafa þeir alt af bætt það. Eg hefi haft tækifæri til þess að reyna þetta sjálfur, þar sem ekki var um annað en lífið að tefla. Það væri því ilt ef sú stefna kæmist að, að leggja þröskuld í veginn fyrir íslenzkan iðnað, með því að tolla þá vöru, er Íslendingar búa til, en láta sömu vöruna vera tollfría. ef hún er búin til í útlöndum. Af sömu ástæðum vill nefndin undanþiggja pappír tollinum, því að með pappírstolli er lagður tollur á innlenda bókagerð. Því að með því að undanskilja pappír, sem er í bókum, sem fluttar eru frá útlöndum, verður þessi niðurstaðan, að Íslendingar verða að borga toll af þeim bókum, sem hér eru gefnar út. Þetta er ekki annað en að verðlauna menn fyrir að láta prenta bækur sínar í útlöndum.

Þá þótti háttv. þingmanni undarlegt, ef fara ætti lengra í breytingunum en þjóðin hefir krafist. En hver hefir farið fram á meira? Stjórnin hefir tekið nokkrar umkvartanir manna til greina og komið með þetta frumv. Hér hefir ekki verið bætt öðru við en gjaldi á aðfluttum bátum, og það hefir verið gert samkvæmt tillögum umboðsmanna bæjarfógeta.

Eg hefi ekki á neinn hátt getað sannfærst af röksemdum, þeim er þessir hv. þingmenn hafa komið með. Eitt sem þeir hafa sagt, er að málið muni ekki ganga fram í efri deild með þessum breytingum; en ef efri deild ekki vill fallast á. það svo breytt, er eigi lengi verið að bregða öðru eins máli og þessu í Sameinað þing.