30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í C-deild Alþingistíðinda. (1231)

4. mál, landsreikningar

Ráðherrann (H. H.):

Það er mikið rétt, sem háttv. 1. þingm. Rvk (L. H. B.) sagði, að það er óheppilegt að landareikningarnir séu svo seint tilbúnir. En þetta kemur blátt áfram af því, að verið var að reyna að láta umboðsendurskoðunina vera sem lengst komna, áður en landsreikningurinn væri saminn. En starfskraftur í stjórnarráðinu var ekki nægur. Ef að meiri starfskraftur hefði verið, hefði umboðvendurskoðunin gengið fljótara, og reikingurinn orðið fyr tilbúinn. Það var líka rétt, sem sami háttv. þingmaður sagði, að það er óheppilegt, að gjaldheimtumenn landssjóðs skuli ekki allir gera reikningskil nógu snemma. Flestir senda þó reikninga sina nógu snemma, og geri þeir það ekki, þá fá þeir áminningu hjá stjórnarráðinu. Hér er erfiðara að hafa eftirlit með slíku en í öðrum löndum, þar sem samgöngurnar eru miklu greiðari. Þar sem járnbrautir eru um alt land, er hægt í einum vettvangi að ná í það sem vantar. Hér tekur það aftur á móti mikinn tíma að skrifa með landpóstum og fá svör aftur langar leiðir að, ef eitthvað er í ólagi. Að svo miklu leyti sem ræða háttvirts þingmanns um þetta efni átti að vera aðfinsla til núverandi stjórnar, þá skaut hann þar fram hjá markinu, því að sjóðþurðin, sem hann talaði um að orðið hefði hjá einum sýslumanni á Norðurlandi, var tilkomin áður en eg tók við ráðherraembættinu; og eg held að það hafi verið eitt mitt fyrsta embættisverk, að fyrirskipa rannsókn gegn þessum manni.

Það sem háttvirtur þingmaður var að tala um síðast í sinni ræðu, að nauðsynlegt væri að tilfæra orðrétt fjárlögin, þá verð eg að álíta, að það sé nauðaómerkilegt atriði. Endurskoðendurnir hafa alveg eina fjárlögin við hendina eins og stjórnarskrifstofan, og ekki get eg séð, að það sé mikið ómak fyrir þá, þótt þeir stöku sinnum þurfi að stinga niður blýjanti til að bæta við alt að eða því líku. Þetta atriði held eg að háttvirtur þingmaður hafi meira talað um til þess að hafa eitthvað til að finna að, heldur en að það lægi honum svo ríkt á hjarta, að slíkt kæmi ekki fyrir.