30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í C-deild Alþingistíðinda. (1250)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Maður nokkur hefir sagt mér sögu, sem vei á við ef þessi lög koma fram og koma á þeim ósið, að menn fara að kalla sig bræður föður síns:

Einu sinni voru tvær kerlingar að tala saman. Önnur þeirra sagði við hina: »Geturðu ekki sagt mér, hvers son er hann aftur, hann Jón hérna Gissurarson?« »Hann Jón Gissurarson?« svaraði hin. »Nú, hvað, er hann ekki Pálsson?« — Jú, það er alveg rétt«, svaraði hin fyrri. Óskaparbjáni er eg að vera að spyrja að þessu. Eg held svo sem eg viti það. Það er einmitt hann sonur hans Jóna hérna Pálssonar í Nesi«. Og það kom þeim saman um kerlingunum.

Þessi saga er alveg rétt mynd af þeim nafnagraut, sem yrði, ef þessi lög fengju fram að ganga. Þetta spillir svo mjög daglegu tali, að það er fráleitt að leyfa það með lögum, að það ætti heldur að banna það. Og ekki er rétti einstaklingsins haggað, þó því sé varnað að ekki sé spilt dýrmætustu eign þjóðarinnar. Tunga og siðir norrænu þjóðanna er okkar bezti — já, jafnvel einasti gimsteinn. Og þeir sem vilja flekka hann, þeir ættu ekki einu sinni að mega ganga lausir. Hér þarf að varðveita réttmæta hagsmuni þjóðarinnar, þá hagsmuni, sem gerði okkur að því sem við vorum og við erum, og vonandi verðum. Sem gerir okkur að því, að við getum staðið á sporði innar fornu menningar, en verðum þó jafnframt tryggari frelsi landsins, en forfeður okkar voru. vona eg, að hafið og nafnið Ísland, sem hingað til hefir gætt okkar, muni gera það enn, ef við viljum nokkuð gera til þess að varðveita tungu og siði feðra okkar. Væri illa ástatt fyrir okkur, ef forfeður okkar hefðu verið eins og þeir menn eru nú, sem vilja selja sína gömlu siði ef einhver útlendingur vill lita við þeim. Og í sama strenginn taka þeir menn, sem þetta frumv. styðja, og vona eg, að þeir verði færri, en hinir, sem ekki vilja að menn fari að klína við sig einhverju nafni, sem öllum góðum mönnum er andstygð að.

Þær almennu ástæður fyrir því, að þetta frumv. fái ekki óbreytt fram að ganga, felast í brtill. mínum um: Að hver maður skuli heita einu eiginnafni, og kenna sig við föður sinn, er þörf gerist. En heimilt skuli mönnum að taka sér kenningarnafn, en þó þannig, að ekki megi menn taka upp annan sið, en hingað til hefir tíðkast.

Að því leyti get eg fallist á tillögur meiri hlutans, að eg vil að menn heiti einu nafni svo þeir geti ekki vilt heimildir á sér. En ekki held eg, að með þessum lögum þurfi að banna það, að menn geri það í sviksamlegum tilgangi, því að önnur lög gera það. Eg sé reyndar, að hér í frumv. er gert ráð fyrir alt að 100 kr. sekt gegn því, en sú sekt er ekki svo há, að hún fæli menn neitt frá því að gera það.

Nú hefi eg drepið á það helzta og hygg að eg þurfi ekki að fara fleiri orðum um það að sinni. Þó er það eitt enn þá. Það er síðasta brtill. meiri hlutans við 13. gr., að þessi málsgrein falli burtu:

»Í öllum opinberum skrám og skýrslum skal ávalt rita eiginheiti manna á undan föðurnafni«.

Það vill ekki meiri hlutinn. Er það annars æði-undarlegt, að vera í lögum að tala um fornafn, eins og hver maður eigi að hafa sérstakt fornafn.

Hver maður á að brúka sama fornafnið alla æfi. T.d. ætti framsm. meiri hlutans ætíð að nota fornafnið hún, hvort sem hann vildi sagt hafa eg, þú, hann, eða sem, þessi, hinn o.s.frv.

En þó eg nú skildi, að hér var ekki um fornafn (prænomen) að ræða, þá get eg þó ekki fallist á tillögu meiri hlutans, að þessi málagrein skuli falla niður, sem er eina málsgreinin í 13. gr., sem getur staðið óhögguð að öðru leyti en því, að ekki skal þar standa »fornafn«, heldur »nafn«. Nú á síðustu tímum eru menn farnir að sjá, hvílík flónska það er, að raða nöfnum í skýrslum eftir föðurnafninu. Eru margar slíkar endaskiftaskrár og má þá fyrsta telja endaskiftaskrá símastjórnarinnar. Allar slíkar skrár eru ónýtar og óhæfar. Tökum nú til dæmis, að eg þarf að tala við mann í síma. Þó eg þekki manninn vel, þá er fyrir því ekki sjálfsagt að eg viti, hvað faðir hans heiti. Þá er mér ómögulegt að finna hann á símaskránni. Verð eg þá að síma til miðstöðvarinnar og spyrja, hvers son þessi maður er, og er það þá undir hælinn lagt, hvort símastúlkurnar vita það, því ekki er hægt að gera ráð fyrir því, að þær viti hvers synir allir menn eru í bænum. Ef þær geta ekki sagt mér það, þá get eg ekki talað við þennan mann í síma.

Þó er þetta nú sök sér, en út yfir tekur þegar til bæjargjaldkerans kemur. Eg sendi þangað mann til þess að borga eitthvað. Hann segist eiga að innborga peninga fyrir Bjarna frá Vogi. »Hvers son er hann?«, spyr gjaldkerinn. Og ef maðurinn veit það ekki eða man það ekki í svipinn, þá verður hann frá að hverfa við svo búið.

Yfir höfuð er það undarleg hugmynd, að það sé hægara að raða, nöfnum eftir föðurnafni en eignarnafni. Og fleira er einkennilegt í þessum lögum, eins og t. d. þetta: Föðurnafn hvers manns er fornafn föður hans haft í eignarfalli að viðbættu son, ef karlmaður er, en dóttir, ef kvenmaður er. Faðir minn er Jónsson, en faðir systur minnar er Jónsdóttir ! Það er laglega orðað þetta!

Annars er það margt fleira, sem er hér hálf-skrítið, en eg vil ekki tefja tímann með því að tala um það að sinni. Annars hefi eg ekki öðru við að bæta en því, að eg tel tillögu meiri hlutans um »nafnfesti« vafasama. Í fyrstu var eg í efa um, hvort nota mætti þetta orð »nafnfesti«, en nú hefir meiri hlutinn sannfært mig um að orðið sé alveg rétt, þó hann hafi ætlað sér að sanna það gagnstæða. Meiri hlutinn tilfærði sínu máli til sönnunar þessi orð Hrólfs kraka: »Það er títt, at gjöf skal fylgja nafnfesti«. Þetta sýnir einmitt, að það er ekki gjöfin, sem er nafnfesti, og því hefir meiri hlutinn sannað það þveröfuga við það sem hann ætlaði sér. Hann hefir einmitt sannað, að þetta skjal má kalla nafnfesti.

Vona eg svo að háttv. deild samþykki brtill. mína, en að öðrum kosti skora eg á hana að drepa frumvarpið gersamlega.