09.07.1913
Neðri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (136)

21. mál, íslenskur sérfáni

Magnús Kristjánsson:

Eg ætla að eins að víkja örfáum orðum að hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.). Vil eg fyrst lýsa yfir því, að eg var alls ekki á flokksfundi í sambandsflokknum í gær, og get eg vel fært sönnur á það.

Þessi ummæli hv. 1. þm. Rvk. fara því langt yfir mark, og verða að falla niður sem dauð og ómerk.

Eg hefi enga »Instruktion« haft í þessu máli, og skil eg eigi, hvaða ástæður hv. þingmaður hefir haft til að væna mig um það: Hitt skil eg, að hann vilji hafa einkaleyfi til að tala og starfa í þessu máli, og kæri sig ekki um, að eg sé að þvælast fyrir honum.

Hvað viðvíkur vilja kjósenda minna, lýsti eg yfir því, að eg fer eingöngu eftir mínum eigin vilja og því sem eg hef sagt við kjósendur á fundum. Eg held því sömuleiðis fram, að sú skoðun, sem eg hefi látið í ljósi hér, fari alls ekki í bága við fundarsamþyktina á Akureyri.

Mun eg svo ekki ræða meira um þetta mál að sinni.