03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í C-deild Alþingistíðinda. (1409)

93. mál, hallærisvarnir

Framsögum. meiri hl. (Ólafur Briem):

Eg get þakkað háttv. þingmönnum undirtektirnar undir þetta mál. Eg get jafnvel þakkað þeim sem andmælum hafa hreyft á móti því, og lýst yfir því að þeir gætu ekki fylgt því, því að þeir hafa aliflestir játað, að hugmyndin væri fögur og tilgangurinn góður. Og út af fyrir sig er mikið fengið með þeirri viðurkenningu.

Háttv. 1. þingm. Rvk. (L. H. B.) tók það fram, að ekki væri þörf á þessu fyrirtæki og að það væri naumast framkvæmanlegt. Það er aðalatriðið, hvort þörfin er fyrir hendi. Hitt getur mönnum varla blandast hugur um, að það er framkvæmanlegt. Hér er um enga frekari örðugleika að ræða en þá, sem oft hafa verið yfirstignir, og hér á ekki að fara aðra leið en þá, sem venjulega er farin með öll ný mál.

Menn verða að gæta að því, að álögur á landsmenn eru ekki eingöngu fólgnar í beinum ákvæðum um ný gjöld, heldur einnig í hvers konar óbeinum útgjöldum, sem lögð eru á landssjóðinn. Það er vitaskuld, að í hvert skifti sem útgjöld eru lögð á landssjóð, þá skapast með því nauðsynin á nýjum tekjum. Það væri því stór munur, ef mikil slys bera þjóðinni að höndum, að geta bætt úr því án þess að þurfa að láta landssjóðinn blæða til þess. Það væri í raun og veru enginn útgjaldaléttir, því að landssjóðnum þyrfti að útvega tekjur jafnframt — og það yrðu landsmenn sjálfir að greiða, ef til vill þegar verst gegndi.

Sami háttv. þingmaður hélt því fram, að ekki væri mikil hætta á því, að hallæri bæri að höndum. Eg þarf ekki annað en að vitna í söguna til þess að sýna, að við erum engan veginn öruggir. Það sem hefir komið fyrir, getur tekið sig upp aftur, ef engar varnarráðstafanir eru gerðar.

Hann vitnaði í það, að hættan væri að ýmsu leyti minni en hún var áður og að ef um nokkurt hallæri gæti verið að ræða, þá næði það aðallega eða jafnvel eingöngu til eina landsfjórðungsins, Norðlendingafjórðungs, vegna hafísa. Það er vitaskuld, að þessi hættan af þremur hefir verið sú, sem aðallega hefir bólað á upp á síðkastið. En það er engan veginn sagt, að ekki geti orðið ný vandræði af öðrum ástæðum. Fólk flykkist saman á vissa staði, þar sem einhver atvinnuvon er í svipinn, en hversu auðveldlega getur það ekki komið fyrir, að atvinnuskortur verði og þar af leiðandi vandræði? Slíkt getur komið fyrir þó að ekki hafi verið samgönguteppu um að kenna, eða öðru slíku.

Hann vitnaði til þess, að skortur meðal manna stafaði jafnan af skorti á fóðri handa skepnum, og væri því að kenna óforsjálni manna.

Það er vitaskuld, að með frumvarpi því bem samþykt var hér í deildinni fyrir skemstu, er verið að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkan skort. — En ef kemur harður vetur og slæmt sumar á eftir og svo enn aftur vetrarharðindi, eins og oft hefir átt sér stað, getur oft verið örðugt að ákveða, hve margt megi setja á, ef fyrningar eru þá heldur ekki miklar fyrir hendi. Og er oft varla hægt að lóga svo skepnum að menn geti verið alveg öruggir.

Þá vitnaði hann til þess, að þá kæmu að haldi forðabúrin og þá sérstaklega kornforðabúrin, samkvæmt lögum þeim sem nýlega hafa verið samþykt. En við því er það að segja, að það hefir ekki verið gert annað en að veita heimild til að gera samþyktir um kornforðabúr. Lögin, sem samþykt voru um þetta efni, ganga ekki lengra. Það er því engin trygging fyrir að kornforðabúr verði stofnuð, þar sem þeirra er mest þörf.

Svo kom háttv. þingmaður að því, að ef menn kæmust í vandræði, ættu sýslunefndirnar að bæta úr þeim. Um sýslunefndir er það að sem, að þær hafa ekki annað fé til umráða en það, sem hreppasjóðir eiga að standa þeim skil á, og það verður ekki miklu til leiðar komið með því fé, sem þannig er jafnað niður á sveitarfélögin í hvert skifti, ef ekki er reynt að safna í sjóð á góðu árunum til að gripa til, þegar vondu árin koma.

Viðvíkjandi því, að landssjóður hlaupi undir bagga, þá kann það að orka tvímælis, hve langt vald landstjórnarinnar nær í því efni. En hvað sem því líður, þá er samt á þessu hvorutveggja sá mikli galli, að bæði er óvíst að féð sé fyrir hendi og svo hlýtur líka einhvern tíma að koma að skuldadögunum. Einhvern tíma verður að bæta landssjóði upp það fé, sem hann leggur út til þessa, og gæti orðið óþægilegra fyrir menn að þurfa að snara því út í einu eða á skömmum tíma, þegar menn væru nær því búnir, heldur en að safna svona smám saman fyrir fé, sem getur aukist stórkostlega við að ávaxtast.

Ef að sú spá manna skyldi rætast, að ekki þyrfti til sjóðsins að taka, þá eykst hann og margfaldast á líkan hátt og frækornið sem falið er í jörðu og ber margfaldan ávöxt þegar upp kemur. Þessi sjóður getur líka borið góðan ávöxt, ekki eingöngu til að aukaat sjálfur, heldur og sem veltufé til arðberandi fyrirtækja.

Þá var það eitt, sem háttv. sami þm. hélt fram, að þetta mál væri ekki nægilega undirbúið og væri haldið hér fram að fornspurði þjóðinni. Það er nú svo um hvert mál eftir því hvernig á það er litið; en eg tel það ekki lítilsverðan undirbúning, að sá maður, sem af öllum er viðurkendur að vera einn inn vitrasti, áhugamesti og reyndasti af bændum landsins, Torfi í Ólafsdal, hefir undirbúið það með röksamlegum ritgerðum í Búnaðarritinu.

Að um málið hefir ekki verið skrifað mikið í blöðin, mun hafa stafað af því, að menn hafa verið úrræðalitlir. Menn hafa séð þörfina, en engan greiðan veg til að koma málinu í framkvæmd Nú hafa verið fundin ráð til þess og þau ráð álítur nefndin að muni eigi baka mönnum mjög tilfinnanleg útgjöld, því þótt því hafi verið haldið fram, sérstaklega af háttvirtum 2. þingm. G.-K. (Kr. D.), að varla sé gerlegt að bæta við nefskattana, þá ætti hreppsnefndunum ekki að verða skotaskuldir því, að láta þetta gjald koma nokkurn veginn réttlátlega niður, þar sem þeim er veitt heimild til að jafna því niður eftir efnum og ástæðum og þætti mér líklegt að sú leiðin yrði einmitt farin.

Síðan mintist háttv. þm. á, að þetta mundi verða til þess að veikja lánstraust landsina í útlöndum. Er það undarleg skoðun, að álíta, að það muni veikja lánstraust landsins, sem einmitt ætti að tryggja það. Ef nokkur hlutur ætti að auka lánstrauat landsins, er það einmitt þetta, að hafa sem beztan viðbúnað við þeirri hættu, sem á undanförnum öldum hefir valdið mestum hnekki í velmegun landsmanna. Þó hallærisbálkurinn sé þéttskipaður í sögu vorri, þá er hér samt engu verið að spá um þetta fyrir framtíðina. Það er nú liðinn fullur aldarfjórðungur frá því er síðast kom hér hallæri. Árin 1882–1887 má telja hallærisár, en síðan ekki, og er það langur góðæriskafli. En þótt hallæri geti komið fyrir, þá er það ekkert sérstakt fyrir þetta land. Í þeim löndum, sem lúta brezkum yfirráðum, kemur iðulega fyrir hallæri, jafnvel þó það ríki þyki fyrirmynd í fjálmálastjórn og margri félagsskipun. En hvað ætli það séu mörg ár, sem sjálf höfuðborg heimsina, Lundúnaborg, er laus við hallæri? Eða Indland, sem lýtur sama konungi og Bretland og er að ýmsu leyti eitt af beztu löndum í heimi.

Þetta úrræði, sem háttv. þm. talaði um síðast í ræðu sinni, að fela stjórninni málið til undirbúnings, getur haft sína kosti. En eg ímynda mér, að hún verði heldur úrræðalitil. Enda er það engin trygging fyrir að þingið aðhyllist málið, þó stjórnin undirbúi það. Þess eru mörg dæmi.

Í sínu innsta eðli er þetta mál lífsnauðsyn þjóðarinnar, og henni ætti ekki að vera nein vorkunn á að koma sér saman um úrræði til að bæta úr þeirri nauðsyn. Og eg hygg, að þessi stefna geti ekki vakið neina óánægju, sízt hjá þeim sem eitthvað hugsa fram í tímann.