04.09.1913
Neðri deild: 51. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í C-deild Alþingistíðinda. (1414)

90. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Lárus H. Bjarnason :

Þótt mér væri það ljóst, að ráðgerð höfn í Vestmannaeyjum yrði aðallega ef ekki eingöngu fyrir eyjarnar sjálfar, þá lagðist eg þó ekki móti frumvarpinu í nefndinni, meðan sat við inar upprunalegu ráðgerðu upphæðir framlags og ábyrgðar, enda þótt engar sannanir lægju fyrir um það, að höfnin mundi bera sig.

Nú hefir hæstv. ráðherra upplýst, að tilboðið, sem fram er komið, sé 45 þús. kr. hærra en áætlunin gerir ráð fyrir. Þessi upplýsing eykur enn vafa minn og það tvöfaldlega:

1. Verður þar með óvíst, að Vestmanneyingar megni að koma höfninni upp, og sérstaklega

2. Hvort þeir geti staðið straum af vöxtum, afborgunum og rekstrarkostnaði.

Til stuðnings því, að þetta fyrirtæki mundi bera sig , hefi eg að eins heyrt órökstudda yfirlýsing frá háttv. flutnm. (J. M.). Ekki get eg heldur gert ráð fyrir því, að lægri tilboð muni koma fram en komið hefir frá Monberg; hann stendur allra manna bezt að vígi að því að gera tilboð, þar sem. hann hefir öll tæki við hendina við hafnargerðina hér og þarf ekki annað en að fleyta þeim stuttan spöl.

Þegar þetta er athugað, þá er fallin burt ástæðan fyrir því, að amast ekki við því að landssjóður leggi fram styrk og ábyrgð á láni til fyrirtækis, sem líklega eingöngu kemur Vestmanneyingum að haldi.

Eg get því ekki greitt frumvarpinu atkvæði á þessu stigi málsins; verð líklega hlutlaus.