06.09.1913
Neðri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í C-deild Alþingistíðinda. (1452)

26. mál, sparisjóðir

Pétur Jónsson:

Eg hefi litlu við það að bæta, sem háttv. framsögumaður minni hlutans sagði. En eg vil samt eigi draga dul á, að mér virðast breyt: till. þeirra háttv. 2 þingm. G.-K. og háttv. 1. þm. Eyf. eigi vera til bóta, heldur langtum fremur til skaða tilgangi þessa frumv.

Breyt till. á þgskj. 726 við 9. gr. er um að fella niður seinni hluta 2. málagreinar, sem hljóðar svo:

»Þó má féhirðir veita móttöku greiðslum í sjóðinn. án þess að annar starfsmaður sé viðstaddur, en skuldbindandi er kvittun hans því að eins fyrir sjóðinn, að hún sé meðundirrituð af bókara Sömuleiðis getur féhirðir greitt fé úr sjóðnum gegn ávísun formanns, þótt aðrir starfamenn séu eigi viðstaddir, sbr. 6. gr. í 1. málsgr.

Það er eitt, sem veltur á þessu ákvæði, og það er, að hér er nákvæmlega ákveðið, hvenær inngreiðslur séu orðnar skuldbindandi fyrir sjóðinn. Hér er skorið úr um það, að ef gjaldkeri og bókari gefa kvittun fyrir greiðslu í sjóðinn, er það orðið skuldbindandi fyrir hann, þó að eigi standi í bókunum. En ef ekki hefir nema annarhvor þeirra kvittað, er það ekki skuldbindandi. Þetta finst mér nauðsynlegt að sé ákveðið greinilega.

Að skella ferðakostnaði gæzlumanna á landssjóð finst mér vera óviðeigandi, úr því að búið er að rýra eftirlitið með sjóðunum í sparnaðarskyni við landssjóð. Það mun einmitt hafa vakað fyrir, þegar umsjónin var gerð kostnaðarminni, að sparisjóðirnir sjálfir ættu að standa straum af henni. Það er alt annað mál, þótt landssjóður hefði borgað umsjón eins manns, eins og til var ætlast í frumvarpinu eins og það kom frá efri deild. Þó var eg þeirrar skoðunar, að sparisjóðirnir ættu einnig undir þeim kringumstæðum að leggja eitthvað af mörkum í staðinn samkvæmt stjórnarfrumv.

Þá ætla eg að minnast á breytingartillögu háttv. 1. þingm. Eyf., um að rýmka svo til um útlán úr sjóðunum gegn víxlum og sjálfskuldarábyrgð, að þetta megi nema alt að 2/3 hlutum.

Eg er að vísu alls eigi ánægður með greinina eins og hún er í frumvarpinu. Úr því farið var að setja fastar akorður um tryggingar, hefði eg heldur kosið að tiltekið væri nákvæmlega, hve mikið af innstæðufé sjóðanna skuli vera trygt með öruggum veðum. Gæti eg því fallist á þessa breytingartillögu, ef í henni væri jafnframt ákveðið, að t.d. 1/3 hluti innstæðufjárins skuli vera í tryggum veðum. Á eg þar ekki eingöngu við 1. veðrétt í fasteign, heldur einnig 2. veðrétt, ef hann er verulega góður eða hátt upp í venjul. fyrsta veðrétt, eina og oft getur orðið. En 2. og 3. veðréttur fara að verða lítils virði, þegar út á þá er tekið alt að fullu verði. Eins og tillagan liggur fyrir, er því ekkert bætt úr þessu með henni.

Eg hefi borið þetta atriði undir bankafróðan mann, og sagði hann, að sér litist ekki á þetta ákvæði. Kvað hann til jafnaðaðar meiri tryggingu vera í fasteignarveðum, þótt léleg væru, en í sjálfskuldarábyrgð, því þar sem of mikið væri lánað út á fasteignir, þar væri líka lítið að byggja á ábyrgð manna.

Get eg því ekki verið með breytingartillögunni eins og hún liggur fyrir. Enda þótt sparisjóðir hafi það hlutverk, að hlaupa undir bagga með lánveitingar, þá er þó aðalhlutverk þeirra að vernda tryggilega fé, það sem inn í þá er lagt.