12.07.1913
Efri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

28. mál, ábyrgðarfélög

Steingrímur Jónsson (framsögum.):

Eins og háttv. þingdeildarmenn hafa sjeð, er nefndarálit okkar mjög stutt. Við viljum eindregið leggja til, að frv. sje samþykt óbreytt. Við höfum allir orðið sammála um, að í því sje falin mikil rjettarbót, því að það hefur lengi verið tilfinnanlegt, hvað húseigendur hafa átt örðugt með að fá hús sín vátrygð, og vátryggingarfjelögin hafa oft reynzt ósanngjörn og erfið til endurgreiðslu, þegar húsbruna hefur borið að höndum. Það er nauðsynlegt, að úr þessu sje bætt og sjerstaklega eru ómissandi lagaákv æði um, að vátryggingárfjelög geti eigi starfað hjer, nema þau hafi varnarþing hjer á landi. Þetta snertir að vísu mest brunabótafjelögin, en á þó einnig að ná til allra annara ábyrgðarfjelaga, sem starfa hjer á landi.

Hin merkustu nýmæli þessa frv.s eru þessi: Öll tryggingarfjelög eiga hjer eftir að vera undir umsjá stjórnarráðsins, sem þannig getur fengið hönd í bagga með starfsemi þeirra. Í öðru lagi er hverju fjelagi gert að skyldu að hafa einn aðalumboðsmann hjer á Iandi, sem beri alla ábyrgð á starfsemi fjelagsins og sem menn hjer geti jafnan snúið sjer að. Í þriðja lagi á sjerhvert fjelag að vera skyldugt að hafa hjer varnarþing, og er það mjög þýðingarmikið atriði. Loks á hvert félag að setja hæfilega tryggingu fyrir skilvísri greiðslu tryggingarupphæðanna.

Stjórnin hefur þó álitið rjett, að láta þessi nýmæli ekki ná til þeirra fjelaga, sem vel og lengi hafa starfað hjer; hún hefur verið hrædd um, að þau kynnu að bregðast illa við og segja upp ábyrgðum, og gæti það orðið til stórtjóns. Nefndin hefði að vísu helzt óskað, að ákvæði frv. næðu til allra fjelaga, en hyggur þó, að stjórnin hafi svo mikið til síns máls, að ráðlegt sje að fara eftir tillögum hennar í þessu efni. Það er líka bót í máli, að það munu ekki vera nema 4 brunabótafjelög, sem hafa starfað hjer í 20 ár eða lengur. Öll hafa þau reynzt ábyggileg og skilvís fjelög, og um eitt þeirra hefur mjer verið sagt, að það hafi varnarþing hjer á landi.

Að svo mæltu vil jeg fyrir hönd nefndarinnar leggja það til, að frv. verði samþykt.