24.07.1913
Efri deild: 15. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Björn Þorláksson, framsögumaður:

Jeg stend upp til að segja aðeins örfá orð, en vísa og vitna að öðru leyti til þess, sem nefndin sagði um málið við 2. umr. þess, og í nefndarálitið sjálft. Jeg stend fast við það, að þegar um það er að ræða, að veita Steingrími rektor Thorsteinsson heiður, þá eigi eingöngu að líta á hann sem skáld og rithöfund, en ekki sem embættismann; og að heiðursvottinn eigi og megi ekki miða við það, hvenær hann lætur af embætti. Nefndin telur sig hafa fundið hina rjettustu og sæmilegustu leið, til að láta í ljósi virðingu og þakklátsemi við hið ágæta skáld og rithöfund, þar sem hún vill, að þingið færi honum heiðursgjöf í nafni þjóðarinnar. Brtill. á þgskj. 159 fer fram á, að heiðursgjöfin sje hækkuð um 1000 kr.; á hún að sýna það, að fyrir nefndinni er þetta mál enganveginn fyrst og fremst fjármunamál, heldur principmál. Oss er ekki fast í hendi með það, hvort heiðursgjöfin er nokkuru hærri eða lægri, en oss er það áhugamál, að hinu aldraða skáldi sje sýndur sem mestur sómi, og það tel jeg bezt verða, með því að sú leið sje valin, sem nefndin hefur valið. Skal jeg svo ekki fjölyrða um málið. Jeg vil aðeins taka það fram, að þar sem tillaga nefndarinnar hefnr sætt mjög hörðum og ómaklegum mótmælum hjer í deildinni, þá legg jeg alla meðferð nefndarinnar í máli þessu óhræddur og óhikað undir dóm þjóðarinnar. Að lokum óska jeg þess, að nafnakall verði viðhaft, þegar til atkvæða er gengið.