25.07.1913
Efri deild: 16. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

78. mál, veiðiskattur

Guðmundur Björnsson, flutningsm.:

Fyrst vil jeg þakka h. 1. þm. Húnv. fyrir, að hann vildi flytja þetta mál með mjer, og þar næst vil jeg biðja háttvirtu deild að afsaka, að þetta frv. kemur svona bert og nakið.

Það er nú svo, að þótt jeg hafi ekki átt langar setur á þingi, þá hef jeg þó búið mörg mál undir þing og það hefur glatt mig, að þingið hefur oft farið loflegum orðum um þá vinnu mína. En jeg veit, að fáir hjer í hv. deild mun renna grun í það, hversu afarmikla vinnu þarf til þess opt og einatt, að undirbúa málin svo vel sje; sannleikurinn er sá, að flóknustu mál sýnast oft mjög einföld, þegar búið er að skýra þau og greiða vel úr þeim.

Þessvegna er það ekki altaf rjett, þegar verið er að ásaka stjórnina fyrir, að hún hafi undirbúið málin illa; bæði hefur hún oft lítinn tíma til þess fyrir öðrum störfum, og eins vantar hana oft menn með nægri kunnáttu.

Jeg hef aldrei áður borið fram jafn óundirbúið mál og þetta frv., en fuglafriðunin, og allur þessi mikli vængjaþytur hjer í hv. deild hefur knúið mig á stað.

Það er um mig sem aðra, að flestar þær fræðigreinar, sem mjer voru kendar til undirbúnings læknismentunarinnar, hef jeg orðið að leggja á hylluna, en þó hef jeg haldið trygð við sumar þeirra. Og þar á meðal er fuglafræðin. Jeg hef kynt mjer islenzka fugla, ávalt haft gaman af því, og alt, sem að fuglaveiðum lýtur, og veit því meira þar, en sumir háttv. þingmenn halda.

Kveinstafir yfir því, að fuglunum fækki, heyrast nú alstaðar, og enn meira erlendis en hjer á landi.

Þegar byssan kom til sögunnar, hófst vandræðaöld fuglanna; þá fór eyðilegging þeirra að verða tilfinnanleg, en þó tók út yfir, þegar afturhlöðnu byssurnar komu á gang, þessi handhægu og hraðskeytu vopnin, og nú orðin svo ódýr, að hver maður getur veitt sjer þau, þeim er það að kenna, þessum nýju morðvopnum, að fuglar eiga hvergi friðland, en drepnir unnvörpum.

Erlendis, þar sem þjettbýlt er, eiga fuglarnir erfiðara uppdráttar en hjer á landi, og þar hefur þeim fækkað stórum. Það er nú svo komið víða erlendis, að ýmsar fuglategundir er gersamlega horfnar, og aðrar orðnar sjaldgæfar, sem áður voru almennar.

Og menn hafa fundið sárt til þessa erlendis, alveg eins og hjer.

Og menn hafa reynt fuglafriðun alveg eins og hjer.

Og fuglafriðunin hefur verið gagnslaus erlendis alveg eins og hjer.

En þá fundu menn þar nýtt ráð. Menn fundu upp veiðimerki.

Þetta ráð hefur víða verið tekið upp, t. d. í Frakklandi og Þýzkalandi.

Og bæði fuglaveiðimenn og fuglafræðingar eru sammála um það, að þetta hafi gert langmest gagn.

Samkvæmt veiðitilskipuninni frá 1849 á hver landseti veiðirjett á jörð sinni, og jeg veit, að fátækir menn hafa oft aflað sjer álitlegra hlunninda með byssunni sinni, en þeir hafa lika vit á því, að strádrepa ekki fuglinn. En miklu fleiri eru þeir landsetar, sem ekki nota veiðirjett sinn og hafa ekkert upp úr honum, en líða öðrum að nota hann, án þess að fá neitt í aðra hönd; land þeirra er að því leyti, eins og það væri almenningseign.

Það dettur engum í hug, að veiða silung eða lax í á einhvers bónda án þess að fá leyfi fyrir því, að mega vera að veiðinni, en það dettur engum í hug, að biðja leyfis, þó að hann vaði yfir landið til fugladráps.

Einkum hefur fugladrápið ágerzt síðan fólkinu fjölgaði í sjóþorpunum. Nú vaða menn frá sjávarþorpunum í heilum herskörum yfir sveitirnar, og þessum fuglamorðingjum þykir það mest fremdin, að drepa sem mest og flest með byssum sínum.

Heiðarlöndin eru, eins og menn vita, almenningseign, og þar mega allir veiða, en þeir eru tiltölulega fáir, sem nota þann rjett; hafa sumir gott upp úr því, en greiða ekkert fyrir.

Og eins er það um landhelgina, að hún er einskonar almenningseign, og þar mega allir veiða, og það er jeg viss um, að á sjónum eru framin flest brotin á friðunarlögunum. Innan landhelginnar mundu lög um veiðimerki koma að margfalt meiri notum, en friðunarlögin ein um sig. Þeir, er hefðu keypt veiðimerki, mundu þá gæta þess, að þar væri enginn að veiðum, sem ekki hefði rjett til þess, og það er ólíkt hægar, að sanna löglega veiði yfirleitt, en hitt að koma því upp, að einhver tiltekinn fugl hafi verið drepinn.

Jeg þykist því vera viss um það, að ef þetta frumv. yrði að lögum, þá verður veiðirjetturinn meira virði fyrir bændur, og að þá verður líka betur farið með hann.

Þeir, sem ekki notuðu hann sjálfir, mundu þá selja hann á leigu, og þeir, sem leigðu hann, mundu fljótt sjá, að það verður að fara með fuglana á sama hátt og fjeð. Óhætt að lóga nokkru á hverju ári, en ekkert vit í því, að strádrepa niður alt kynið.

Fuglaveiðamennirnir hugsa um þetta og gefa því nánar gætur, en hinir, fuglamorðingjarnir, drepa alt, sem þeir geta náð, án þess að hngsa um afleiðingarnar.

Þetta er munurinn á fuglaveiðamönnum og fuglamorðingjum.

Fuglseðlið er alstaðar eins, og mannseðlið er alstaðar eins, og þess vegna held jeg, að það sem hefur komið að góðu gagni erlendis, kæmi það lika hjer.

Jeg geri mjer þess vegna von um, að hin óáttv. deild taki máli þessu vel, og yfirvegi það, og leyfi mjer því, að leggja til, að málinu verði vísað til 3 manna nefndar, að þessari umræðu lokinni.