29.07.1913
Efri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

30. mál, leynilegar kosningar til bæjarstjórnar í kaupstöðum

Einar Jónsson:

Jeg þarf ekki að tala langt mál um brtill. mínar, því þær hafa allar fundið náð fyrir augum nefndarinnar, nema ein. Það er brtill. við 3. málsgrein 5. gr. stj.frv., þar sem mjer þótti orðið „kjörseðill“ koma of oft fyrir, en auðvitað skiftir sú brtill. ekki máli. Málið á málsgreininni verður aðeins liprara, ef brtill. mín væri samþykt, en eins og nefndin vill orða hana; en efnismunur enginn og greinin eins skýr, og er því rjettara að samþykkja hana. — Úr því að jeg er staðinn upp, vil jeg geta þess, að jeg aðhyllist ákvæði stjórnarfrumvarpsins um kosningu manna, sem atkvæði eiga á fleiri listum en einum. Ef einhver maður er á mörgum listum, þá virðist það vafalaus bending í þá átt, að hann hafi alment traust og hylli kjósenda. Ef mikil deilumál væru á dagskrá, þá mundi enginn flokkur taka neinn þann mann á sinn lista, sem væri talinn veill og óákveðinn í þeim efnum, og komi þá ekki til kosninga. En venjulega eru flokkaskiftingarnar ekki mjög skarpar við bæjarstjórnarkosningar og varðar þá mestu, að þeir nái kosningu, sem bezt eru hæfir til starfa í bæjarstjórn, en það eru ekki alt af mestu kappsmennirnir, heldur hófsmennirnir, sem ekki telja sjer ætið skylt, og eigi heldur hyggilegt, að fylgja stefnuskrá neins flokks út í yztu æsar, en hafa þó alment traust og fylgi margra manna í öllum flokkum fyrir gætilega og hyggilega stjórn í bæjarmálum yfirleitt. Mjer þykir vel farið, að stjórnarfrumv. greiðir fyrir því, að einmitt slíkir menn geti náð kosningu.