04.08.1913
Efri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

26. mál, sparisjóðir

Jón Jónatansson:

Jeg hef, ásamt tveim öðrum háttv. þm. leyft mjer að koma fram með breytingartillögu á þgskj. 255. Háttv. frsm. nefndarinnar (Þ. J.) hefur nú skýrt frá afstöðu nefndarinnar til þessarar tillögu, en jeg finn ekki ástæðu til að lengja umræðurnar mikið, en vil aðeins víkja að henni örfáum orðum.

Það er fljótsagt, að brtill. þessi fer fram á það, að láta það bíða fyrst um sinn að setja um þetta fastar skorður. Það sem vakir þar fyrir oss tillögumönnum, er að láta eftirlitið leiða í ljós, hvaða skorður eigi að setja og hvaða breytingar eigi að gera.

Það þarf að rannsaka það, hversu langt þarf að fara í þessu, því að er svo náið samband á milli hagsmuna innleggenda og lántakanda, og því arhugavert að gera nokkuð það, er hnekki lánsstarfseminni. Við viljum þess vegna ekki setja þessi takmörk strax, við viljum láta bíða með það, þangað til það er komið í ljós, hvaða takmarkanir þurfa, og hvar takmörkin eiga að vera. Og þetta á umsjónarmaðurinn að geta rannsakað.

Við 2. umræðu málsins var vikið að því, að aðalatriðið fyrir sparisjóðina væri söfnun fjárins. En söfnunin er mjög nátengt því að gera fjeð arðberandi, því að getur ekki verið meining löggjafarvaldsins, að styðja að því, að menn safni fje í vetlingsþumla eða feli það í kistuhandraðanum, heldur hitt að fjeð beri þeim arð, er safna, og geti jafnframt unnið öðrum gagn. Það má því ekki telja þetta eins aðskilið, og sumir hv. þm. virðast vilja gera, því söfnunin kemur þá fyrst að verulegu gagni, að fjeð sje arðberandi.

Við aðra umræðu ljet hv. 3. kgk þm. (Stgr. Jónsson) í ljósi, að ákvæðið um víxlana og sjálfskuldarábyrgðarlánin næði ekki til þeirra víxla eða sjálfskuldarábyrgðarlána, sem jafnframt eru trygð með handveði eða fasteignaveði, en þá tel jeg betra, að fella þetta ákvæði burtu, því jeg efa, að það sje gott, að setja slík ákvæði í lög, sem óhjákvæmilega leiða til þess. að menn leita ýmsra bragða til að fara svo í kringum lögin, og ekki eru lánin tryggari fyrir þessi málamyndarveð, sem hjer er gefið undir fótinn með, því þessi viðbótarveð geta oft verið lítils eða einskisvirði, og eins er það um handveðslánin, að þau eru tvíeggjuð; lánunum yrði einmitt miklu siður borgið alloft með þessu móti, heldur en nú á sjer stað almennt hjá sparisjóðum um venjuleg sjálfskuldarábyrðarlán; yrði þeim því ekki betur borgið.

Háttv. frsm. (Þ. J.) taldi það litla varfærni, að lána út á fiskinn í sjónum, og kann að vera, að það sje svo, fljótt á litið. en þegar nánar er aðgætt, þá er svo ekki. Lán þessi, sem jeg gat um að sparisjóður Árnessýslu lánaði sjómönnum til veiðarfærakaupa, eru að öðru leyti vel trygð, og aflavonin er aukatrygging, og svo eru lánin greidd af óskiptum afla, og það hefur aldrei komið fyrir, þó að afli hafi eitthvað brugðizt, að lánin ekki hafi greiðzt; þau hafa reynst vel trygg. Þetta hefur reynslan sýnt; það hefur aldrei tapazt á þeim, og reynsluna er meira að marka en getgátu og ímyndun manna.

Jeg vil ekki mæla á móti því, að nauðsynlegt kunni að vera, að einhverjar takmarkanir sjeu settar fyrir útlánsstarfssemi sparisjóðanna, en jeg vil, að reynslan leiði í ljós, hvar þeirra er þörf, og hvar takmörkin eigi að vera, og jeg tel það varasamt, eins og nú er ástatt, að fara lengra en þörf krefur.