11.08.1913
Efri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

47. mál, styrktarsjóður handa barnakennurum

Steingrímur Jónsson:

Háttv. frsm. (J. B.) byrjaði ræðu sína á að tala um þá framsýni, er þetta frv. bæri vitni um. Það gladdi mig, því að það kom heim við það, sem jeg sagði við aðra umræðu, að í þessu frumvarpi væri farið inn á sömu sanngirnisbrautina og farið hefur verið, er ræða hefur verið um launakjör þeirra starfsmanna þjóðfjelagsins, er kallaðir eru konunglegir embættismenn, sem sje að gera aðstöðu kennara líka og embættismanna samkvæmt eftirlaunalögunum frá 1904, og þrátt fyrir hina löngu ræðu háttv. framsm. (J. B.) hef jeg ekki sannfærzt um annað. Háttv. framsm. (J. B.) sagði líka, að hann vonaði, að ekki liðu mörg ár, þar til allir kennarar gætu fengið eitthvað af þessum sjóði, ekki eingöngu þeir, er þurfandi væru. Það er líka sannleikurinn, að hjer á okkar fátæka landi eiga kennarar, er fjölda ára hafa unnið þarft og erfitt vandaverk í þarfir lands og þjóðar, ekki aðeins rjett á slíku, heldur hafa þeir þörf á því; efnahag kennara mun undantekningalaust þannig háttað. Þeir eiga rjett á því, þar sem þeir hafa lagt fje í þennan sjóð, og eins af því, að þeir hafa slitið kröftum sínum í þarfir þjóðfjelagsins. Það er sama stefnan eða andinn í þessum Lögum og eftirlaunalögunum frá 1904.

Háttv. framsm. (J. B.) mintist á eftirlaunalögin 1904, en hann leit mjög einhliða á þau. Hann reif þau út úr sögulegu samhengi. Þessi lög kollvörpuðu algerlega eftirlaunalögunum frá 1856. Með þeim var því breytt lögum, er gilt höfðu hjer um langan aldur. Með eldri lögunum var embættismönnum trygð aðstaða þeirra í fjárhagslegum efnum. En hvernig var nú lögum þessum breytt ? Öll hærri eftirlaun voru minkuð meira en um helming. Jeg skal skýra þetta með dæmi: Sá, sem hefur 6000 kr. laun fær eftir gömlu lögunum 4000 kr. í eftirlaun, en nú 1800 kr., eftir 30 ára þjónustu. Embættismaður með 3000 kr. launum fær eftir gömlu lögunum 2000 kr., en eftir þeim nýju 1200 kr. Embættismaður með 1500 kr. launum fær nú 900 kr. eftir 30 ára þjónustu, en eftir gömlu lögunum 1000 kr. Háttv. framsm. (J. B.) hefði átt að skýra frá hinu sanna samhengi í þessu efni. Með lögunum 1904 var komið á meiri jöfnuði í þessum efnum. Þing og þjóð viðurkendi rjettmæti eftirlauna. Það var viðurkent, að þá er menn hefðu starfað 30 ár í þarfir þjóðfjelagsins, hefðu slitið kröftum sínum og heilsu í þarfir þess, þá mætti það ekki sleppa hendi sinni af þeim, ekki sízt, ef efnahagurinn væri þannig, að embættismaðurinn gæti ekki sjeð fyrir sjer og sínum. Því er svo háttað um marga starfsmenn þjóðfjelagsins, að þeir hafa um æfina vanizt betra lífi en fjöldinn. Sumir þeirra hafa meira að segja orðið að lifa dýrara lífi og við meira skírt og ljóma, en upplag þeirra stóð til, því að staða þeirra knúði þá til þess, er þeir hafa orðið að lifa með tignum og auðugum mönnum. Það er og hart að taka sleifina úr hendi embættismanna eftir 30 ára embættisstörf og segja við þá: „Nei, nú verður þú að breyta til um lifnaðarháttu. Nú verður þú að lifa við alt af skornum skamti, það sem þú átt eftir, ef til vill, við sult og seyru“. Menn hafa viljað tryggja það með eftirlaununum, að þetta gæti ekki komið fyrir.

Þessi lög eru svo mild gagnvart landssjóði, og hinsvegar svo sanngjörn gagnvart embættismönnum, að jeg sje ekki, að betra fyrirkomulag verði fundið. Þegar það er aðgætt, hvað embættismenn verða að leggja af mörkum til þess að tryggja sjer geymdan lífeyri, t. d. embættismaður með 1500 kr. launum, er geldur 30 kr. á ári, þá fær hann að líkindum hlutfallslega litlu meira úr landssjóði en það, sem kennarinn fær hlutfallslega, eftir því, sem hann leggur til móts við landssjóðstillagið. Jeg get ekki sagt nákvæmlega um þetta því að jeg hef ekki reiknað það út.

Það er satt, að það stendur, að styrk skuli að eins veita verðugum og þurfandi kennurum. En það er enginn vafi á því, að takmarkið á að vera það, að hverkennari, sem lagt hefur í sjóðinn; fái styrk úr honum, þegar hann hefur náð vissum aldri. Takmarkið á að vera það, að varna því, að kennarar þurfi að þiggja af sveit. Þessi styrkur á að koma í stað sveitarstyrks. Að því marki verður að keppa, og því verður vonandi náð innan skamms. Þessu marki hafa Danir og Englendingar náð að nokkru leyti með ellistyrktarlögum sínum, en Englendingar iðrast þó eftir, að þeir hafa ekki tekið upp nákvæmlega sama fyrirkomulag og hjer er, samkvæmt lögunum um ellistyrk.

Þá var það eitt atriði í ræðu háttv. framsm. (J. B.), sem jeg vil ekki segja, að væri beinlínis móðgandi, en það átti að minsta kosti mjög illa við. Hann sagði, að eftirlaun embættismanna væru metorðalaun. Þetta er rangt. Gáum að, hvernig eftirlaun eru til orðin ? Þau eru til orðin af því, að það þótti nauðsynlegt, að tryggja það starfsmönnum þjóðfjelagsins, sem yfirleitt hafa á höndum langvandasömustu og ábyrgðarmestu störf þjóðfjelagsins, að þeir gætu helgað alla krafta sína stöðu sinni og ættjörð. Það varð að tryggja þá á ýmsan hátt og gegn ýmsu. Það varð fyrst að tryggja þeim sæmileg laun, svo að þeir gætu varizt þvingun að ofan, frá voldugum og auðugum aðli, að tryggja þeim, að þeir yrðu ekki hálfgerðir þrælar voldugra auðmanna, og að þeir gætu ekki litið niður á þá fyrir fátæktar sakir. Það varð að tryggja þeim fullkomið fjárhagslegt sjálfstæði upp á við, og það varð ekki gert með öðru móti en að tryggja þeim, að þeir gætu lifað og haldið sig eins höfðinglega og voldugir og tignir auðmenn, er þeir þurftu að beita sjer og valdi sínu gegn. Og til þessa varð að tryggja þeim framtíð þeirra alla, og það varð ekki gert á hagkvæmari hátt, en með eftirlaunum. Það eru og staðreyndir, að þar sem eftirlaun eru ekki, eru embættislaunin þeim mun hærri, svo að ríkið græðir ekki á afnámi þeirra, heldur bíður peningalegt tjón af því. Þá mun og verða sú raunin á, þar sem engin eftirlaun eru, að embættismenn leggi mikinn hug á að auðgast, meira en góðu hófi gegnir. Það getur verið gott, að þeir haldi spart á, en það má þó ekki vera um of. Þetta er sanna hliðin, sú er upp á við vissi. Hin hliðin veit niður á við, það þarf líka að tryggja þá gegn eilífu aðkasti þeirra, er þeir eiga að stjórna.

Háttv. framsm. (J. B.) sagði, að það, sem vekti fyrir almenningi með afnámi eftirlauna, væri það, að alþýða vildi eyða öllum stjettamun. En það er ekki það, sem fyrir henni vakir, heldur ráða hjer mestu um endurminningar frá gömlum tímum, þegar embættismannavald og kaupmannavald stóð saman, endurminningar um kúgun þá, er alþýða varð að sæta af hendi kaupmanna og embættismanna.